Veftré Print page English

Sólarhringsútsending. Loftslagsbreytingar og hamfaraveður


Loftslagsstofnun Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, The Climate Reality Project, stendur nú fyrir sólarhringsútsendingu frá öllum heimsálfum um samspil loftslagsbreytinga og hamfaraveðurs. Útsendingin hófst klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma með upphafsþætti frá New York og henni lýkur á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók klukkan fimm í morgun þátt í beinni útsendingu þar sem fram fóru samræður sem helgaðar voru bráðnun íss á Norðurslóðum og breytingum á jöklum á Íslandi, Grænlandi og í Alaska. Forseti mun einnig klukkan níu í kvöld taka þátt í samræðum um Suðurskautslandið, bráðnun íshellunnar og áhrif á hækkun sjávarborðs en forsetinn fór í upphafi þessa árs í fræðsluleiðangur til Suðurskautslandsins sem Al Gore stjórnaði.

Heimsútsendingin er skipulögð á þann hátt að ein klukkustund er helguð hverju tímabelti og er þá einkum fjallað um breytingar sem orðið hafa á veðurfari í viðkomandi heimshluta, svo sem ofsaveður, storma, flóð og þurrka, og önnur einkenni veðurfarsins á undanförnum árum sem rekja má til þróunar loftslags vegna mengunar og aukins útblásturs koltvísýrings.

Í  útsendingunni tekur þátt fjöldi áhrifamanna og sérfræðinga, athafnamanna og forystumanna í vísindum og alþjóðasamstarfi. Má sem dæmi nefna að auk Al Gore og forseta Íslands koma þar fram Christiana Figueres, framkvæmdastjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), athafnamaðurinn Richard Branson, umhverfisverndarsinninn Fabien Cousteau, veðurfréttamaður ABC sjónvarpsstöðvarinnar Sam Champion og Kandeh Yumkella, framkvæmdastjóri Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNIDO).

Fylgjast má með útsendingunni á vefslóðinni
http://climaterealityproject.org/ og þar er sýnt yfirlit yfir umræðuefni á hverri klukkustund.

 

15. nóvember 2012