Veftré Print page English

Fundur með Finnlandsforseta


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í morgun, sunnudaginn 21. október, fund með nýjum forseta Finnlands Sauli Niinistö í Helsinki. Á fundinum var rætt um eflingu samstarfs á Norðurslóðum, heimsókn forsetans til Íslands á næsta ári og traust tengsl og vináttu norrænu lýðveldanna, Íslands og Finnlands.

Á undanförnum árum hefur þróun mála á Norðurslóðum skapað Finnlandi og Íslandi fjölþætt ný verkefni og mikilvægt er að styrkja samráð og samræður hinna fjölmörgu aðila sem koma að málefnum Norðurslóða, bæði stjórnvalda, vísindastofnana, almannasamtaka sem og íbúa hinna dreifðu byggða. Norðurskautsráðið hefur styrkst jafnt og þétt og er nú grundvöllur viðræðna um formlega samninga ríkjanna á Norðurlóðum. Nauðsynlegt er hins vegar að samræma afstöðu til vaxandi áhuga ríkja í öðrum heimshlutum á þátttöku í þróun Norðurslóða.

Forsetarnir ræddu hugmyndir um víðtækan samráðsvettvang sem opinn yrði öllum sem áhuga hefðu á málefnum Norðurslóða og yrði haldinn til skiptis í ríkjum svæðisins.

Forseti Finnlands þakkaði boð forseta um að heimsækja Ísland á næsta ári enda væru fjölmörg ný viðfangsefni á dagskrá landanna og mikilvægt að styrkja áfram tengsl Íslands og Finnlands, bæði á norrænum vettvangi og með tilliti til Norðurslóða.