Samvinna Íslands og Rússlands. Norðurslóðir
Forseti á fund í Moskvu með Vladimir G. Titov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, og Viktor Tatarinshev, yfirmanni Evrópudeildar rússneska utanríkisráðuneytisins og fyrrum sendiherra Rússlands á Íslandi. Rætt var um fjölmarga þætti í vaxandi samstarfi á Norðurslóðum, árangur af starfi Norðurskautsráðsins, áhrifin af nýjum siglingaleiðum á Norðurslóðum og þörfina á víðtæku samstarfi í þágu þeirra, sem og eflingu samráðsvettvangs fræðasamfélaga, almannasamtaka, vísindastofnana og kjörinna fulltrúa á Norðurslóðum. Þá var einnig rætt um samstarf Íslands og Rússlands á sviði jarðhita en áhugi á því kom fram á fundi forseta með þáverandi forseta Rússlands, Dmitri Medvedev, og þáverandi forsætisráðherra, Vladimir Putin, fyrir tveimur árum. Senn væru 70 ár frá því að Ísland og Rússland tóku upp formlegt stjórnmálasamstarf og fyrirhugaðir ýmsir viðburðir í tilefni af þeim tímamótum. Fundinn sat einnig sendiherra Íslands í Rússlandi, Albert Jónsson, og aðrir embættismenn. Myndin frá fundi forseta með aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands var tekin í salnum þar sem fyrstu viðræðurnar um stofnun Sameinuðu þjóðanna fóru fram. Mynd.