Veftré Print page English

Ferðaþjónusta á Norðurslóðum


Forseti á fund í New York með Sven-Olof Lindblad um framtíð ferðaþjónustu á Norðurslóðum, verndun umhverfis og glímuna við loftslagsbreytingar en aukin bráðnun íss og jökla gefur til kynna vaxandi hraða slíkra breytinga. Fyrirtæki Lindblads skipuleggur árlega ferðir um náttúruperlur veraldar, einstök landsvæði í öllum heimsálfum. Það hefur m.a. skipulagt ferðir til Íslands, Svalbarða og um önnur svæði Norðurslóða og Lindblad stjórnaði í ársbyrjun ferð til Suðurskautslandsins sem forseti tók þátt í. Ísland getur á margvíslegan hátt þjónað sem miðstöð ferða um Norðurslóðir þar sem sérstök áhersla er lögð á verndun umhverfis. Lindblad hefur áhuga á því að ræða við íslenska ferðaþjónustuaðila um framtíðarsýn í þessum efnum, sérstaklega með hliðsjón af margvíslegum verkefnum sem á komandi árum verða æ brýnni með vaxandi fjölda ferðamanna.