Heimsþing um umhverfismál
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, fimmtudaginn 4. október, ræðu á Heimsþingi um umhverfismál, The 4th International EcoSummit, sem haldið er í Ohio í Bandaríkjunum. Þingið sækja um 1700 sérfræðingar, vísindamenn, umhverfissinnar og athafnamenn frá 76 löndum. Bandaríkin og Kína eru með flesta þátttakendur.
Á Heimsþinginu er fjallað um fjölmarga þætti í verndun lífríkis og umhverfi jarðar sem og þær hættur sem nú steðja að vatnsbúskap og fæðuöryggi jarðarbúa, m.a. vegna yfirvofandi loftslagsbreytinga.
Ræða forseta fjallaði um nauðsyn þess að tengja saman rannsóknir á bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum, Suðurskautslandinu og í Himalajafjöllum. Öll þessi svæði sýndu yfirvofandi hættu á alvarlegum loftslagsbreytingum. Forseti rakti samvinnu íslenskra og kínverskra vísindamanna um rannsóknir á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu og gerði grein fyrir niðurstöðum sem fram komu á málþingi sem haldið var í Háskóla Íslands þegar kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn heimsótti landið í lok siglingar um norðurleiðina frá Shanghæ til Íslands.
Í ræðunni, sem á ensku ber heitið The AHA-moment, hvatti forseti til samstarfs allra þjóða um rannsóknir á tengslum bráðnunar íss við loftslagsbreytingar. Fyrst Ísland og Kína gætu með árangursríku samstarfi skapað nýja þekkingu á þessu sviði hefðu önnur ríki ekki lengur neina afsökun fyrir aðgerðaleysi. Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu embættisins.
Síðdegis í gær tók forseti einnig þátt í málstofu um loftslagsbreytingar og fæðuöryggi sem stjórnað var af hinum þekkta jarðvegsvísindamanni Rattan Lal. Meðal ræðumanna þar var einnig bandaríski umhverfissinninn og vísindamaðurinn Lester Brown sem um árabil hefur haft mikil áhrif á alþjóðlega umræðu. Hann stofnaði á sínum tíma World Watch Institute sem árlega hefur gefið út skýrslur um stöðu umhverfismála á veraldarvísu, State of the World Reports.
Í samræðum á málþinginu gerði forseti grein fyrir árangri Íslendinga við þurrkun sjávarafurða sem seldar hafa verið til Afríku. Sú aðferð gæti orðið grundvöllur betri nýtingar á matvælum, m.a. kjöti, grænmeti og ávöxtum. Áætlað hefur verið að allt að 20% matvæla sem framleidd eru í heitari löndum verði ónýt innan fárra daga vegna skorts á geymsluaðferðum.
Í Ohio átti forseti jafnframt fundi með dr. Lonnie Thompson, einum fremsta jöklafræðingi veraldar, og öðrum vísindamönnum Ohio háskóla á sviði jarðvegsfræða, vatnsbúskapar og loftslagsmála. Lonnie Thompson hefur stýrt samvinnu um rannsóknir á jöklum Himalajasvæðisins en ráðstefna um það efni, The Third Pole Environment Workshop, var haldin á Íslandi í fyrra í boði forseta og Háskóla Íslands. Ráðstefnuna sóttu m.a. vísindamenn frá Indlandi og Kína auk sérfræðinga frá Evrópu og Bandaríkjunum.
Á fundunum í Ohio var rætt um framhald slíks alþjóðlegs samstarfs og framlag íslenska vísindasamfélagsins til þess. Mikill áhugi er á að nýta þekkingu og reynslu íslenskra vísindamanna og gæti samvinna Ohio háskóla við Háskóla Íslands orðið grundvöllur að menntun og þjálfun ungra vísindamanna frá löndum Himalajasvæðisins.
Myndir frá heimsókn forseta til Ohio má nálgast á heimasíðu embættisins.
5. október 2012