Veftré Print page English

Fundir í Harvard um Norðurslóðir


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í gær, þriðjudaginn 2. október, fundi með dr. Nitin Nohria, forseta Harvard Business School, og dr. David T. Ellwood, forseta John F. Kennedy School of Government, um þróun Norðurslóða og nauðsyn víðtækrar samvinnu um rannsóknir á því sviði. Mikilvægt væri að fremstu háskólastofnanir Bandaríkjanna tækju höndum saman við fræðasamfélög annarra ríkja á Norðurslóðum. Þar gæti öflugt framlag Harvard háskóla skipt sköpum.

Á báðum fundunum var fjallað um aukinn áhugi ríkja í öðrum heimshlutum á aðild að stefnumótun og nýtingu auðlinda á Norðurslóðum. Ákvarðanir þyrftu því að byggja á víðtækri þekkingu og ítarlegum rannsóknum sem og lýðræðislegri þátttöku íbúa og almannasamtaka á Norðurslóðum.

Á fundinum með forseta John F. Kennedy School of Government var vísað til ýmissa rannsókna sem unnar hafa verið á vegum skólans og í viðræðum við forseta Harvard Business School kom fram áhugi hans á því að skólinn ynni sérstök rannsóknarverkefni sem tengdust undirbúningi framkvæmda, þróun nýrra siglingaleiða og nýtingu auðlinda.

Niðurstaða beggja fundanna var að skynsamlegt gæti verið að fræðastofnanir innan Harvard háskóla mynduðu samstarfsvettvang sem gæti orðið þátttakandi í auknu samstarfi um málefni Norðurslóða.

Fundina sat einnig Alice Rogoff, stjórnandi Norðurslóðaþingsins Arctic Imperative Summit sem haldið var í Alaska fyrr á þessu ári, en hún hefur verið öflugur talsmaður aukins samstarfs á Norðurslóðum.