Afmælisráðstefna Icelandair
Í ræðu sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti fyrr í dag á 75 ára afmælisráðstefnu Icelandair hvatti hann til að gerð yrði þjóðaráætlun um hvernig taka ætti á móti 2 milljónum ferðamanna sem að öllum líkindum myndu árlega koma til Íslands áður en þessi áratugur væri á enda.
Ísland væri óðum að verða áfangastaður á veraldarvísu, m.a. vegna umfjöllunar í helstu miðlum veraldar og breytinga á heimsmyndinni.
Bankahrunið og eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum hefðu sett Ísland á heimskortið með nýjum hætti. Norðurslóðir skiptu nú miklu máli með vaxandi áhuga á jöklum og þverrandi ísforða heimsins. Eiginleikar Íslands og nábýlið við Grænland fælu því í sér margþætt tækifæri, nýja tegund ferðamennsku. Það sýndi fjöldi skemmtiferðaskipa sem heimsækti á hverju ári löndin í norðri. Með opnun nýrra siglingaleiða frá Asíu til Evrópu og Ameríku, jafnvel yfir Norðurpólinn að sumarlagi, yrði Ísland komið í alfaraleið á nýjan hátt. Sú ákvörðun að hefja næsta vor áætlunarflug til Alaska og Pétursborgar væri vitnisburður um þessa breyttu heimsmynd. Icelandair yrði þá fyrsta flugfélagið sem gæti með sanni hælt sér af Norðurslóðaneti, ferðum um öll lönd Norðurslóða.
Aukið vægi Asíu, forysta Indlands og Kína í hagkerfi heimsins, og vaxandi styrkur annarra Asíulanda, gríðarleg fjölgun í hinni efnaðri millistétt og löngun ungra Asíubúa til að njóta í návígi framandi náttúru og kynnast þjóðum sem á margan hátt væru til fyrirmyndar – allt þetta skipti okkur miklu máli. Á líkan hátt og Alaskabúar gætu næsta sumar verið fyrr komnir til Reykjavíkur en til New York og Washington og stysta leið Evrópubúa til Hawaii lægi um Keflavík og Anchorage þá gæti flug um Ísland hentað vel Asíubúum á leið til London og Parísar eða ýmissa borga í Bandaríkjunum og Kanada.
Við gætum á vissan hátt sagt að jörðin sjálf væri okkar stóra tromp í flugsamkeppni nýrrar aldar, hnattstaða landsins og mikilvægi Norðurslóða, en miklu skipti líka hvernig íslenskir jöklar, eyðisandar, stórfljót og nýting hafsins myndi ásamt hreinni orku einstakt dæmasafn fyrir umræðuna sem nú væri brýn á veraldarvísu, glímuna sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, teldi mikilvægasta á verkefnaskrá mannkyns alls.
Á líkan hátt hefðu óbyggðirnar orðið æ verðmætari, jafnvel hraunbreiður og fjalllendi í nágrenni Reykjavíkur; ótal staðir þar sem hægt væri að vera einn í návist sköpunarverksins, færðu sálinni nýjar víddir. Fyrir fólk sem byggi í milljónaborgum væri þetta einstök reynsla. Það hefði flest aldrei kynnst hinni römmu taug milli manns og náttúru, að vera einn í heiminum. Þá skipti engu hvað fjöllin heiti. Hugurinn heillaðist af víðáttunni, útsýni í allar áttir. Í raun hefði vísubrotinu verið snúið á haus. Við gætum nú sagt: „Landslag væri mikils virði þótt það héti ekki neitt!“
Við þyrftum því, líkt og ákveðið hefði verið í Banff þjóðgarðinum í Kanada, elsta þjóðgarði heims, að búa okkur undir komu milljóna manna sem langaði að upplifa einsemd með náttúrunni, finna í sálu sinni nýja hljóma, hlýða á bergmálið í fjallasal, tónlist þagnarinnar.
Ræðuna í heild má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.
25.09.2012