Veftré Print page English

Samvinna Íslands og Alaska


Við upphaf Norðurslóðaþings, Arctic Imperative Summit, sem nú er haldið í Alaska átti forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson fund með ráðherrum og æðstu stjórnendum Alaskaríkis, borgarstjóra Anchorage og öðrum ráðamönnum. Á fundinum kom fram mikill áhugi á að efla samvinnu Alaska og Íslands. Áætlunarflug Icelandair til Alaska á næsta ári er talið tákn um nýja tíma í ferðaþjónustu og samgöngum. Tækifærin séu einnig á öðrum sviðum, t.d. við nýtingu jarðhita og vatnsorku, í sjávarútvegi, rannsóknum og vísindum. Þá kalli vaxandi mikilvægi Norðurslóða á síaukna samvinnu Alaska og Íslands.

Á fundinum kom fram að fjöldi fyrirtækja í Alaska telur að áætlunarflug Icelandair muni efla umsvif á mörgum sviðum, sérstaklega tengsl ferðaþjónustunnar við markaði í Evrópu og skapa nýja möguleika á ferðum um Norðurslóðir. Nýtt áætlunarflug félagsins til Pétursborgar í Rússlandi sé einnig mikilvægt í þessum efnum.

Þá vilja ráðamenn í Alaska læra af reynslu Íslendinga í nýtingu jarðhita en áhugi er á að kanna möguleika á hitaveitu í Anchorage og öðrum byggðarlögum í Alaska svo og að efla raforkuframleiðslu með jarðhitavirkjunum og vatnsaflsvirkjunum.

Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi og í Alaska hafa á undanförnum árum byggt upp öflugt samstarf um kynningu á sjálfbærum og ábyrgum sjávarútvegi og er ríkur vilji til að efla það enn frekar. Á sjávarútvegssýningunni í Brussel fyrr á þessu ári var haldið málþing á vegum Alaska og Íslands um framtíðarsýn á þessu sviði þar sem forseti Íslands var meðal ræðumanna.
Stjórnendur Alaskaríkis vilja einnig efla samstarf háskóla og vísindastofnana. Þeir telja að náin tengsl fræðasamfélags, almannasamtaka og ráðamanna á Íslandi og í Alaska geti orðið afdrifaríkt framlag til ábyrgrar stefnumótunar á Norðurslóðum. Einnig er áhugi á að stuða að aukinni þátttöku Grænlendinga í slíku samstarfi.

Myndir frá fundinum má nálgast á heimasíðu embættisins.

 

26.8.2012