Veftré Print page English

Norðurslóðaþing í Alaska


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tekur næstu daga þátt í Norðurslóðaþingi sem haldið er í Alaska. Þingið sækir fjöldi áhrifamanna frá Bandaríkjunum, bæði á vettvangi stjórnkerfis, atvinnulífs og fjölmiðla. Þá sitja þingið einnig forystumenn Alaskaríkis og fulltrúar samtaka og byggðarlaga frumbyggja á Norðurslóðum.

Meðal umræðuefna á þinginu eru staða Bandaríkjanna á Norðurslóðum, efnahagsþróun svæðisins og kapphlaupið um nýtingu auðlinda, stjórnun fiskveiða, skipulag flugsamgangna og skipaflutninga, framlag Hafréttarsáttmálans við lausn deiluefna, samstarf Rússa og Bandaríkjamanna og vaxandi mikilvægi Norðurslóða á heimsvísu í alþjóðasamskiptum og efnahagslífi nýrrar aldar.

Í hópi málshefjenda verða auk forseta Íslands m.a. James A. Baker, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, öldungadeildarþingmennirnir Lisa Murkowski og Mark Begich, David Rubenstein forstjóri Carlyle, Fran Ulmer formaður Rannsóknarráðs Norðurslóða í Bandaríkjunum, Chris Matthews þáttastjórnandi hjá NBC sjónvarpsstöðinni, Mead Treadwell vararíkisstjóri Alaska, hershöfðingjar frá Bandaríkjunum og Kanada, forstjórar fyrirtækja, svo og borgarstjórar, sveitarstjórnarmenn og áhrifafólk í samtökum frumbyggja.

Málþingið verður sett í Anchorage, höfuðborg Alaska, í kvöld föstudaginn 24. ágúst, og því lýkur síðdegis mánudaginn 27. ágúst. Heiti þess á ensku er The Arctic Imperative Summit (sbr. arcticimperative.com). Stjórnandi þingsins er Alice Rogoff, stofnandi AlaskaDispatch.com sem annast hefur undirbúning þingsins.

 

Fréttatilkynning.