Yfirlýsing vegna umfjöllunar fjölmiðla
Skrifstofa forseta hefur birt svohljóðandi yfirlýsingu:
Vegna umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga er rétt að árétta eftirfarandi:
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins fá handhafar forsetavalds – forseti Alþingis, forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar – í hendur að öllu leyti hlutverk forseta við setningu laga og önnur hlutverk forseta í stjórnskipun landsins um leið og forseti fer úr landi.
Málið snýst því ekki um hvort forseta er fylgt á flugvöll eða ekki heldur um það hvenær og hvernig forsetavaldið færist frá forseta til handhafanna. Stjórnskipun byggist ekki aðeins á formlegum reglum heldur líka á hefðum sem löng venja hefur helgað.
Allt frá stofnun lýðveldisins hefur þessi flutningur á forsetavaldinu verið í formi handabands við brottför forseta þar eð ekki hefur fundist annað form sem tryggði jafn vel að enginn vafi væri um stað og stund slíkrar breytingar á forsetavaldinu, valdi sem t.d. getur skipt sköpum við setningu laga.
Þar til stjórnarskránni verður breytt eða þar til fram koma haldbærar tillögur um að haga þessum grundvallarþætti stjórnskipunarinnar með öruggum hætti á annan veg geta hvorki forseti né handhafar sett ábyrgðina á aðra enda geri stjórnarskrá lýðveldisins ekki ráð fyrir að embættismenn deili ábyrgð sem samkvæmt henni er forseta og handhafanna einna.
17. agúst 2012