Veftré Print page English

Samræður um sjálfbærar borgir


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson stendur ásamt bandaríska arkitektinum William McDonough fyrir samræðu um sjálfbærar borgir sem fram fer á Íslandi næstu daga. Þátttakendur í samræðunni eru sérfræðingar og áhrifamenn frá Bandaríkjunum og Evrópu og hópur forystumanna frá kínverskum borgum og rannsóknarstofnunum. Kínversku þátttakendurnir eru frá Beijing, Sjanghæ, Hong Kong og Wuxi.

Samræðan er afrakstur viðræðna William McDonough við kínverska ráðamenn sem fram fóru þegar hann var í hópi bandarískra sérfræðinga sem fylgdu Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Kína fyrr á árinu.

William McDonough leitaði til forseta Íslands um að halda samræðuna á Íslandi, bæði vegna árangurs Íslendinga í nýtingu hreinnar orku og vegna langvarandi tengsla sinna við Ísland. McDonough valdi því næst þátttakendur í samræðunum.

William McDonough er meðal áhrifamestu arkitekta í Bandaríkjunum, höfundur kenninga um sjálfbærni borga og bygginga sem m.a. birtast í höfuðriti hans From Cradle to Cradle. Hann var sæmdur sérstökum heiðursverðlaunum árið 1996 af Bill Clinton Bandaríkjaforseta og hefur hannað margar þekktar byggingar, svo sem höfuðstöðvar YouTube í Silicon Valley og hina nýju sjálfbærnibyggingu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Markmið samræðnanna, sem hefjast á Bessastöðum í kvöld, er að koma á samvinnu kínverskra og vestrænna, einkum bandarískra, sérfræðinga og áhrifamanna í því skyni að borgir framtíðarinnar verði skipulagðar á grundvelli sjálfbærni og virðingar fyrir umhverfinu og lífríki jarðarinnar.

14. ágúst 2012