Sendiherra Indlands
Forseti á fund með nýjum sendiherra Indlands á Íslandi, hr. Ashok Das, sem afhenti trúnaðarbréf á Bessastöðum. Rætt var um verulega aukningu samstarfs landanna síðan sendiráðið var opnað fyrir þremur árum, verkefni á sviði tækni, vísinda, orku, ferðaþjónustu og kvikmyndagerðar. Einnig var rætt um samstarf landanna á Himalajasvæðinu varðandi rannsóknir á bráðnun jökla og áhrif hennar á vatnsbúskap fjölmennustu ríkja jarðar, Indland, Kína og fleiri ríki í Asíu. Á eftir var móttaka fyrir fulltrúa stofnana, samtaka og fyrirtækja sem átt hafa samskipti við Indland.