Veftré Print page English

Fyrirlestur við Karlsháskóla í Prag


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, föstudaginn 18. maí, fyrirlestur við Karlsháskólann í Prag, einni af elstu menntastofnunum Evrópu. Fyrirlesturinn fjallaði um hólmgöngu lýðræðis og fjármálamarkaða, togstreituna milli vilja fólksins og hagsmuna fjármálastofnana sem verið hefði kjarninn í glímunni við afleiðingar bankakreppunnar, bæði á Íslandi og víðar í Evrópu.

Fyrirlesturinn, sem fluttur var á ensku, bar heitið Democracy Challenges Global Finances - Lessons from the Icelandic Experience. Í honum rakti forseti hvernig glíma síðustu ára hefði knúið á um sögulegt uppgjör. Á slíkum tímum yrðu ráðamenn og þjóðir að velja hvort væri mikilvægara, lýðræðið eða hagsmunir fjármálakerfisins. Í Icesave málinu og margvíslegu uppgjöri síðustu ára hefði íslenskur almenningur gefið afdráttarlaust svar. Rakti forseti ýmis dæmi þess efnis.

Forseti ræddi einnig hvernig byltingin í upplýsingatækni hefði ásamt nýjum samfélagsmiðlum veitt almenningi tæki til að hafa úrslitaáhrif á stefnumótun og aðgerðir. Við værum vitni að einstæðum tímamótum í þróun lýðræðis sem gætu á sinn hátt orðið jafn söguleg og þegar á sínum tíma kjörnir fulltrúar fengu það vald sem konungar og aðall höfðu áður. Nú væri almenningur að krefjast réttar sem á undanförnum áratugum hefði nær eingöngu verið hjá stofnunum stjórnkerfisins. Að loknum fyrirlestrinum svaraði forseti fjölda fyrirspurna og sat síðan hádegisverð í boði rektors háskólans. Fyrirlestur forseta má finna á heimasíðu embættisins.

Fyrr um morguninn hafði forseti ásamt Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og embættismönnum utanríkisráðuneytis og forsetaskrifstofu átt fund með Petr Ne?as, forsætisráðherra Tékklands. Þar ítrekuðu utanríkisráðherra og forseti sjónarmið Íslendinga í makríldeilunni.

Forseti flutti einnig ávarp í móttöku sem sendiherra Íslands og Íslandsstofa efndu til fyrir fulltrúa íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu og tékkneska samstarfsaðila.

Þá heimsótti forseti hinn þekkta kvikmyndaskóla FAMU þar sem fjölmargir Íslendingar hafa stundað nám. Auk forseta fluttu þar stutt ávörp Helgi Haraldsson, fyrrverandi prófessor, og Börkur Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður sem lauk námi frá skólanum. Kvikmyndin Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson var einnig sýnd í kvikmyndahúsi í Prag í tilefni af heimsókninni.

Heimsókninni til Tékklands lauk í gærkvöldi með því að forsetahjónin sóttu tónleika Andreu Gylfadóttur og tékkneskra tónlistarmanna.