Fundir forseta í Tékklandi
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og forseti Tékklands Václav Klaus fjölluðu á fundi sínum í morgun, fimmtudaginn 17. maí, um þróun mála í Evrópu, afleiðingar fjármálakreppunnar fyrir efnahagslíf álfunnar og hvort stöðugleiki kunni að skapast á evrusvæðinu. Fundurinn, sem haldinn var í Pragkastala, var upphaf opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Tékklands. Áður hafði verið formleg móttökuathöfn við kastalann.
Forseti Tékklands lýsti viðhorfum sínum til þróunar Evrópusambandsins en hann hefur lengi verið gagnrýnin rödd á þá stefnu sem sambandið hefur tekið á undanförnum árum. Hann áréttaði sérstaklega að Tékkar hefðu engin áform um að taka upp evru og yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vildi að landið yrði áfram með sína sérstöku mynt.
Á fundinum var einnig fjallað um endurreisn íslensks efnahagslífs og þá lærdóma sem Íslendingar hafa dregið af glímunni við afleiðingar bankahrunsins. Glíman hefði falið í sér margþættar lausnir, bæði á sviði efnahags og stjórnarfars. Ísland hefði, eins og önnur lönd í Evrópu, verið á vegamótum þar sem kröfur um lýðræðislegan rétt almennings og hagsmuni alþjóðlegs fjármagns toguðust á.
Einnig var fjallað um aukna samvinnu og traust tengsl þjóðanna. Forseti Tékklands Václav Klaus sem og fyrirrennari hans, Václav Havel, hefðu ætíð sýnt Íslendingum vinarhug; margir Íslendingar hefðu stundað nám í Tékklandi, m.a. á sviði kvikmyndagerðar enda yrði fjallað um hana á sérstöku málþingi í heimsókninni.
Forseti Tékklands lýsti áhuga Tékka á að auka samskiptin við Ísland og fagnaði því að hafið væri beint áætlunarflug milli landanna.
Að loknum viðræðum forsetanna var fundur hinnar íslensku sendinefndar og tékkneskra ráðamanna; sátu hann, auk Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, embættismenn utanríkisráðuneytisins og forsetaskrifstofunnar. Á þeim fundi voru rædd ítarlega ýmis þeirra mála sem forsetarnir höfðu rætt á sínum fundi en auk þess var vikið að deilum Íslendinga og Evrópusambandslanda um veiðar á makríl og sagði forseti Tékklands að það mál yrði að skoða sérstaklega og með opnum huga.
Að loknum fundi sendinefndanna ræddu forsetar Íslands og Tékklands við blaðamenn.
Hópur Íslendinga sem kom til Prag í gær ásamt forsetahjónunum í jómfrúarferð Iceland Express fylgdist með móttökuathöfninni við Pragkastala í morgun en flugfélagið mun á næstunni hefja áætlunarflug milli landanna.
Ýmsir aðilar í ferðaþjónustu taka einnig þátt í heimsókninni og efnir Íslandsstofa m.a. til sérstaks kynningarfundar á morgun.
Í hádeginu átti forseti Íslands fund með Milan Št?ch, forseta öldungadeildar tékkneska þingsins, sem síðan bauð hinum íslensku gestum til hádegisverðar í Wallenstein höllinni.
Þá tók við heimsókn í hið fræga og um 650 ára gamla ráðhús Pragborgar þar sem Bohuslav Svoboda borgarstjóri bauð forseta velkominn. Forseti hélt þar stutt ávarp og skrifaði nafn sitt í hátíðargestabók hússins. Því næst átti forseti fund með Miroslava N?mcová en hún er forseti fulltrúadeildar tékkneska þingsins og fulltrúum þingflokka.
Í kvöld sitja íslensku forsetahjónin ásamt íslensku sendinefndinni og fulltrúum íslensks atvinnulífs hátíðarkvöldverð í boði Václav Klaus, forseta Tékklands, og frú Lidiu Klausovu í Pragkastala. Fréttatilkynning. Myndir.