Forvarnarmál. Heiðursverðlaun
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók í gærkvöldi, fimmtudaginn 10. maí, við heiðursverðlaunum evrópskra borga fyrir baráttu sína gegn fíkniefnum og forystu í forvarnarmálum, bæði á Íslandi og á evrópskum vettvangi.
Verðlaunin sem nefnd eru "Lifetime Achievement Award" voru nú veitt í fyrsta sinn. Afhending þeirra fór fram á þingi Samtaka evrópskra borga gegn fíkniefnum, ECAD - European Cities Against Drugs, sem að þessu sinni er haldið á Írlandi. Í samtökunum eru á annað hundrað evrópskar borgir sem hafa á undanförnum árum sameinast í baráttu gegn fíkniefnum.
Þegar formaður ECAD, Jim Corr, afhenti verðlaunin vísaði hann til þess að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefði um árabil stutt á margvíslegan hátt baráttu gegn fíkniefnum á evrópskum vettvangi og beitt sér fyrir nýjum leiðum í forvarnarstarfi. Forsetinn hefði frá upphafi verið verndari átaksins "Evrópsk ungmenni gegn fíkniefnum" - Youth in Europe - en á vegum þess hafa um 20 evrópskar borgir nýtt sér íslenska forvarnarreynslu og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands.
Þá hefði forseti haft forgöngu um að koma á árlegum forvarnardegi í grunnskólum Íslands. Íþrótta- og Ólympíusambandið, UMFÍ, Skátahreyfingin, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðilar hafa í samvinnu við grunnskólana staðið að forvarnardeginum sem hefur skilað góðum árangri.
Í ræðunni við verðlaunaafhendinguna í gærkvöldi þakkaði formaður ECAD forseta Íslands fyrir framlag hans til hinnar evrópsku baráttu. Forsetinn hefði sýnt einstakt fordæmi sem aðrir þjóðarleiðtogar myndu vonandi fylgja.
Forseti Íslands sagðist í þakkarávarpi sínu vera afar þakklátur fyrir þessa viðurkenningu. Þátttakan í baráttu evrópskra borga gegn fíkniefnum og margvíslegu forvarnarstarfi hefði verið sér mikils virði. Baráttan gegn fíkniefnum snerist um að forða ungu fólki frá því að eyðileggja líf sitt. Hver og einn, sem yrði fíkniefnum að bráð, ætti vini og ættingja sem slegnir væru harmi.
Baráttan gegn fíkniefnum væri eitt brýnasta verkefni samtímans og víðtæk samvinna í forvörnum hefði sýnt að hægt væri að finna leiðir til úrbóta. Sigrar myndu fyrst og fremst vinnast með þátttöku fjölskyldna og félagasamtaka í sérhverri heimabyggð, jákvæðum samræðum við ungt fólk. Í þeim efnum fæli sá árangur sem náðst hefði í íslenskum grunnskólum á undanförnum árum í sér mikilvæga lærdóma.
Mynd. Fréttatilkynning.