Veftré Print page English

Sjávarútvegssýning í Brussel


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tekur í dag, þriðjudaginn 24. apríl, þátt í sjávarútvegssýningu í Brussel. Þar kynna um 30 íslensk fyrirtæki, ásamt forystumönnum í sjávarútvegi, árangur og reynslu þjóðarinnar í veiðum, vinnslu og tækniþróun. Sýningin er einn helsti vettvangur sjávarútvegs í Evrópu.

Forseti flutti ræðu á hádegisverðarfundi sem samtök frá Íslandi og Alaska efndu til undir heitinu The Evolution of Sustainability and the Role of Choice. Var þar fjallað um nauðsyn þess að sjávarútvegur um heim allan byggði í framtíðinni á sjálfbærri nýtingu auðlinda og allar afurðir yrðu vottaðar í samræmi við alþjóðlega gæðamælikvarða.
Í ræðu sinni áréttaði forseti hvernig sjávarútvegur hefði verið ein megin forsenda þess árangurs sem Íslendingar hefðu náð á lýðveldistíma. Fest hefði verið í sessi skipulag veiða sem byggt væri á niðurstöðum vísindalegra rannsókna á fiskistofnum. Þótt deilt væri um ýmsa þætti kvótakerfisins væri ljóst að hinn öflugi sjávarútvegur hefði auðveldað Íslendingum að glíma við afleiðingar fjármálakreppunnar.

Forseti rakti hvernig samspil upplýsingatækni og eftirlits hefði gert Íslendingum kleift að fylgjast með veiðum allra skipa. Þá auðvelduðu tölvunýjungar neytendum að rekja vinnsluferli og uppruna aflans. Upplýsingar Fiskistofu væru aðgengilegar á netinu og með nútímatækni væri unnt að veita neytendum um allan heim upplýsingar um vöruna í tölvu eða snjallsíma og gera þeim þannig sjálfum kleift að ganga úr skugga um uppruna hennar.

Forseti færði rök fyrir því að tenging nýjustu upplýsingatækni við skipulag veiða og vinnslu væri árangursríkasta leiðin til að koma á alþjóðlegu eftirlitskerfi en samkomulag um slíkt væri nauðsynlegt ef tryggja ætti verndun auðlinda hafsins á komandi áratugum. Lýsti forseti tillögum þess efnis og greindi frá því að sendinefnd frá Google væri væntanleg til Íslands á næstunni í boði sínu til að kynnast hinu íslenska kerfi og meta hvernig mætti beita því á heimsvísu, m.a. gegnum Google Earth.

Forseti heimsækir líka í dag sýningarsvæði fjölmargra íslenskra fyrirtækja og tekur síðdegis þátt í móttöku sem haldin er á vegum Íslandsstofu og sendiráðs Íslands í Brussel. Í kvöld mun forseti hitta að máli Íslendinga sem starfa í sendiráðum landsins í Brussel og alþjóðastofnunum sem þar hafa höfuðstöðvar. Fréttatilkynning. Myndir.

Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu embættisins sem og myndir frá viðburðum dagsins.