Veftré Print page English

Jarðhitasamvinna við Kína. Risavaxin hitaveituverkefni


Forseti á fund með stjórnarformanni Sinopec, Fu Chengyu, og fjölmennri sendinefnd sem heimsækir Ísland í tengslum við komu Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. Orka Energy og Sinopec hafa samið um gríðarlegar hitaveituframkvæmdir í Kína, sem m.a. felur í sér stærstu hitaveitur heims. Þessi samvinna hefur verið á dagskrá í viðræðum forseta við ráðamenn Kína, allt frá heimsókn Jiang Zemin, þáverandi forseta Kína til Íslands, og á mörgum fundum forseta með Hu Jintao, forseta Kína, og Wen Jiabao forsætisráðherra. Á fundinum var fjallað um samstarf á sviði rannsókna og þróunar, tækni og vísinda, til að efla og breikka nýtingu jarðhita á komandi árum. Slíkar rannsóknir yrðu bæði á Íslandi og í Kína. Þá var fjallað um fjölþætta nýtingu jarðhita: til húshitunar, raforkuframleiðslu, ylræktar, heilsulinda, sundlauga, þurrkunar matvæla og fleiri þátta. Stjórnarformaður Sinopec lýsti því yfir að fyrirtækið, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum heims, hefði ákveðið að gera samvinnu við Ísland, Orka Energy og vísinda- og tæknisamfélagið á Íslandi, að forgangsmáli í orkustefnu fyrirtækisins á komandi árum og áratugum.