Fundir í Harvard og MIT
Fundir í Harvard og MIT
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson heimsótti í gær, þriðjudaginn 27. mars, Harvard háskóla og MIT háskólann í Boston og átti viðræður við vísindamenn og sérfræðinga skólanna um umhverfismál, loftslagsbreytingar, bráðnun íss á norðurslóðum, orkumál, jarðhita og þróun úthafanna.
Fundinum í Harvard háskóla stýrði dr. Daniel Schrag, forstöðumaður Umhverfisstofnunar háskólans. Þar gerði dr. James G. Anderson m.a. grein fyrir rannsóknum á Grænlandsjökli og vísbendingum um þynningu ósonlagsins, bæði yfir Bandaríkjunum, Íslandi og löndum í Norður-Evrópu. Slíkar breytingar hefðu í för með sér verulegar hættur fyrir heilsu og mannlíf í þessum löndum. Þá gerði dr. Henry Lee grein fyrir rannsóknum á sviði orkumála og nauðsyn þess að settar verði reglur um umhverfisvernd í ljósi vaxandi áhuga á olíuvinnslu á norðurslóðum. Dr. Lee hefur að undanförnu unnið með samstarfsfólki sínu að skýrslu um orkubúskap Íslendinga og framtíðarhorfur. Einnig tók þátt í umræðum á fundinum dr. James McCarthy en hann var meðal þeirra vísindamanna sem á sínum tíma kom að gerð skýrslunnar um loftslagsbreytingar á Norðurslóðum sem unnin var á vegum Norðurskautsráðsins.
Á fyrri fundinum í MIT háskólanum, Massachusetts Institute of Technology, gerðu fjölmargir vísindamenn grein fyrir nýjungum á sviði líforku, sólarorku og jarðborana þar sem berg er brætt með geislum. Þá var einnig fjallað ítarlega um rannsóknir á sviði jarðhita og þær hindranir sem komið hafa í veg fyrir víðtæka nýtingu hans í Bandaríkjunum. Fundinn sátu vísindamennirnir Angela Belcher, Michael Fehler, Randall Field, Karen Gleason, Howard Herzog, Ruben Juanes, Anthony Sinskey, Nafi Toksoz og Paul Woskow.
Á síðari fundinum í MIT gerðu vísindamennirnir Raffaele Ferrari, John Leonard og John Marshall grein fyrir rannsóknum á þróun úthafanna og samvinnu MIT við hina virtu hafrannsóknastofnun Woods Hole Oceanographic Institution. Djúpkafbátar, gervihnettir og upplýsingadufl hafa á undanförnum árum stuðlað að víðtækri öflun gagna um ástand úthafanna. Íslenskir vísindamenn og rannsóknarstofnanir hafa tekið þátt í ýmsum þessara verkefna.
Báðum fundunum í MIT stýrði dr. Maria Zuber og sátu þá einnig tveir íslenskir námsmenn sem stunda doktorsnám við MIT háskólann.