Vertu til! Lifum af í umferðinni
Forseti afhenti framhaldsskólanemendum og framhaldsskólum viðurkenningar fyrir sigur í keppninni „Vertu til! – Lifum af í umferðinni” sem Umferðarstofa efndi til.
Ungir ökumenn á aldrinum 17 til 24 ára eru líklegastir til að lenda í alverlegum umferðarslysum. Árið 2011 létust samtals tólf manns í umferðinni og þar af voru fjögur ungmenni.
Síðastliðið haust setti Umferðarstofa af stað verkefnið „Vertu til!” sem er hugmyndasamkeppni nemenda í framhaldsskólum um fræðslu- og áróðursefni fyrir jafnaldra þeirra. Nemendur allra framhaldsskóla landsins gátu tekið þátt í verkefninu.
Í tólf vikur kepptu allir framhaldsskólar landsins um það hvaða nemendur og hvaða skóli byggju til besta, vinsælasta og árangursríkasta efnið sem svo var birt Facebook síðu.
Veittar verða viðurkenningar, 1., 2. og 3. verðlaun, fyrir bestu ljósmyndina og besta slagorðið. Að auki munu þrír framhaldsskólar hljóta viðurkenningar en þeir hlutu flest stig í keppninni.