Veftré Print page English

Fundur með forseta Singapúr


Forseti átti fund með forseta Singapúr Dr. Tony Tan Keng Yam. Á fundinum, sem fram fór í forsetahöllinni, var rætt um sameiginlega hagsmuni Íslands og Singapúr í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir verndun auðæva hafsins. Þessi brýnu verkefni fælu í sér aukna þörf á samstarfi eyríkja. Ísland og Singapúr gætu í þeim efnum, í ljósi sögu sinnar og árangurs, haft ákveðna forystu.


Singapúr studdi á sínum tíma baráttu Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar og hefur verið eindreginn málsvari Hafréttarsáttmálans. Bráðnun jökla og íss á Norðurslóðum og Suðurskautinu ógnar öryggi landsins þar eð hækkun sjávarborðs um 2-3 metra myndi sökkva verulegum hluta byggðar í Singapúr og leggja í rúst hið blómlega efnahagslíf landsins.


Forseti Singapúr fagnaði því að hið virta tímarit The Economist hefði ákveðið að halda þar heimsþing um höfin. Í því fælust mikilvæg skilaboð og vonandi myndi þingið hafa í för með sér aukna alþjóðlega samvinnu við verndun hafsins og auðlindanna sem þar er að finna. Ræddi hann og um tengsl Singapúr við Kína og önnur nágrannaríki.


Þá kom fram á fundinum mikill áhugi forseta Singapúr á endurreisn efnahagslífsins á Íslandi í kjölfar bankahrunsins. Hann kvað afar athyglisvert að Íslendingar hefðu á margan hátt farið aðrar leiðir en rétttrúnaður á vettvangi hins alþjóðlega fjármálakerfis hefur boðað. Höfnun Icesavesaminganna í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum hefði vakið athygli og aðdáun víða um veröld. Sú ákvörðun hefði sýnt hugrekki og sterkan lýðræðislegan vilja lítillar þjóðar.