Heimsþing um höfin
Forseti flutti setningarræðu á heimsþingi um höfin, World Oceans Summit, sem hið þekkta vikurit The Economist efnir til í Singapúr. Að ræðunni lokinni sat forseti fyrir svörum hjá ritstjóra The Economist John Micklethwait.
Heimsþingið sækja um 200 sérfræðingar í haffræði og sjávarútvegi, forystufólk alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka, stjórnendur fyrirtækja og rannsóknarstofnana. Þátttakendur eru einkum frá Evrópu, Asíu og Ameríku. Bankastjóri Alþjóðabankans, Robert Zoellick, verður aðalræðumaður á síðara degi heimsþingsins en Alþjóðabankinn sinnir aðallega hagsæld og efnahagslífi í þróunarlöndum.
Í ræðu sinni fjallaði forseti um nauðsyn þess að efla rannsóknir á höfunum og auðlindum þeirra, rakti reynslu Íslendinga og skipulagningu veiða á grundvelli vísindalegra rannsókna. Einnig fjallaði hann um þróun samstarfs á Norðurslóðum og hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur verið frjór jarðvegur fyrir tæknifyrirtæki á ýmsum sviðum. Framfarir í upplýsingatækni hefðu nú gert kleift að starfrækja víðtækt eftirlit með veiðum og vinnslu og styrkja þannig sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Lýsti forseti hugmyndum um nýtt alþjóðakerfi á þessu sviði sem byggt gæti á reynslu Íslendinga við nýtingu upplýsingatækni í sjávarútvegi.
Á heimsþinginu verða margar málstofur sem m.a. fjalla um rannsóknir á höfunum, þróun sjálfbærs og arðbærs sjávarútvegs, alþjóðasamvinnu og valdsvið einstakra ríkja, reynsluna af Hafréttarsáttmálanum og þörfina á nýjum samningum um fiskistofna utan lögsögu ríkja, framtíð Norðurslóða og heimskautasvæða sem og áhrif loftslagsbreytinga á höfin.
Dagskrá heimsþingsins og frekari upplýsingar má finna á veraldarvefnum: http://www.economistconferences.asia/event/world-oceans-summit.