Veftré Print page English

Suður-Kórea


Á fundi forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar með forsætisráðherra Suður-Kóreu, Kim Hwang-sik, sem haldinn var í Abu Dhabi í gær, þriðjudaginn 17. janúar, kom fram ríkur áhugi Suður-Kóreu á að fá fast sæti sem áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðinu. Mikilvægi Norðurslóða væri nú slíkt að staða Kóreu sem siglingaþjóðar kallaði á virka þátttöku í þróuninni á Norðurslóðum enda fengjust rannsóknarstofnanir í Kóreu nú þegar við margvísleg verkefni á þessu sviði.

Í viðræðum forseta og forsætisráðherrans kom einnig fram áhugi á því að efla samvinnu landanna í orkumálum og nýtingu sjávarafurða. Á þessu ári verður hálf öld liðin frá því að löndin tóku upp stjórnmálasamband og því væri kjörið tækifæri til að styrkja samskipti þeirra.

Þá var fjallað um ástandið á Kóreuskaganum í kjölfar breytinganna í Norður-Kóreu og var í því sambandi rætt um hvernig þróun Evrópu eftir lok kalda stríðsins sýndi að hægt væri að koma á friðsamlegri sambúð og draga úr spennu og hernaðarógn. Lokun herstöðvar Bandaríkjanna á Íslandi væri dæmi um slíkt en marga fleiri lærdóma mætti draga af því hvernig lýðræðisþróun í Evrópu leysti vígbúnað af hólmi og hvernig Bandaríkin og Rússland hafa þróað samvinnu í stað vígbúnaðarkapphlaupsins sem áður fjötraði alla heimsbyggðina.