Veftré Print page English

Forsætisráðherra Skotlands


Á fundinum kom fram ríkur vilji til að efla samvinnu Skotlands og Íslands, bæði með tilliti til vaxandi sjálfstjórnar Skotlands og aukins mikilvægis Norðurslóða. Nágrenni Íslands og Skotlands í Norður-Atlantshafi skapar fjölmörg tækifæri til arðbærrar samvinnu á komandi árum, t.d. í orkumálum með sæstrengjum frá Íslandi og Grænlandi til Skotlands og í þjónustu við siglingar um Norðurleiðina sem breyta mun flutningum milli Asíu, Ameríku og Evrópu.
Stjórnvöld í Skotlandi hafa einnig áhuga á því að kynnast reynslu Íslendinga frá heimastjórn til lýðveldis, hvernig þróun efnahagslífs og þjóðfélags á undanförnum áratugum styrkti stöðu landsins á alþjóðavísu. Sameiginleg arfleifð frá tímum landnáms og þjóðveldis, bókmenntir og sagnir, veita samstarfi landanna líka sterkar rætur og heillandi tækifæri á sviði menningar og fræða.
Einnig var á fundinum fjallað um viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins á Íslandi en forsætisráðherra Skotlands hefur gagnrýnt þau harðlega. Loks var rætt um mikilvægi sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda.