Veftré Print page English

Fundur með forsætisráðherra Kína


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti síðdegis í dag, mánudaginn 16. janúar 2012, fund með forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, en þeir taka báðir þátt í Heimsþingi hreinnar orku sem haldið er í Abu Dhabi. Á fundinum flutti forseti Íslands kveðju frá forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og ítrekaði fyrri boð til forsætisráðherra Kína um að heimsækja Ísland. Wen Jiabao þakkaði fyrir góðar kveðjur og heimboðið og kvaðst mundu gera sitt besta til að koma til Íslands á þessu ári.


Forseti Íslands fagnaði þeirri yfirlýsingu enda myndi slík heimsókn skapa tækifæri til að efla enn frekar samvinnu landanna á mörgum sviðum.


Íslensk þekking og tækni við nýtingu jarðhita hefur þegar skilað góðum árangri í hitaveituframkvæmdum í Shaanxi héraðinu í Kína og kom á fundinum fram ríkulegur stuðningur við að efla samstarf Orku Energy og Sinopec sem er eitt stærsta orkufyrirtæki Kína. Samstarfið miðar að því að leggja hitaveitur í fleiri borgum og héruðum í Kína og draga þannig til muna úr notkun kola til húshitunar.

Forseti Íslands nefndi einnig nýtingu jarðhita til að þurrka matvæli líkt og Íslendingar hafa gert við þorskhausa og aðrar sjávarafurðir. Slík aðferð tryggir betri nýtingu og geymslu matvæla og gæti verið mikilvægt framlag til að auka fæðuöryggi í Kína og öðrum löndum.

Þá var á fundinum rætt um frekari samvinnu á sviði vísinda og tækni. Forseti Íslands nefndi sem dæmi hugbúnað Marorku sem nú þegar er notaður í skipum víða um lönd og tryggir allt að 10% orkusparnað. Kínverjar eru óðum að verða forysturíki í skipasmíðum og gæti búnaður Marorku gert þann flota til muna umhverfisvænni.

Annað dæmi sem forseti Íslands nefndi var sú umhverfisvæna steypa sem Ólafur H. Wallevik prófessor, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og erlendir samstarfsaðilar þeirra hafa þróað en um helmingur allrar steypu í heiminum er nú framleiddur í Kína.

Einnig var á fundinum fjallað um rannsóknir á jöklum Himalajasvæðisins og áhrif minnkandi íss á umhverfi Norðurslóða, hvernig rannsóknarniðurstöður og samstarfsform sem mótast hafa á Norðurslóðum gætu nýst þeim ríkjum, stórum sem smáum, sem í vaxandi mæli búa við hættur af bráðnun jökla í Asíu.