Veftré Print page English

Heimsþing hreinnar orku


Forseti tekur þátt í Heimsþingi hreinnar orku, World Future Energy Summit, sem hófst í Abu Dhabi í morgun, mánudaginn 16. janúar. Heimsþingið sækja þjóðarleiðtogar, forystumenn í orkumálum, sérfræðingar, vísindamenn og stjórnendur stórfyrirtækja víða að úr veröldinni. Meðal þeirra eru forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, stjórnendur nokkurra stofnana Sameinuðu þjóðanna og ráðherrar frá ýmsum löndum, þar á meðal forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond.

Í tengslum við Heimsþingið er haldin viðamikil sýning þar sem um 650 fyrirtæki frá 35 löndum sýna nýjungar á sviði hreinnar orku og umhverfisverndar. Sérstaka athygli vekur að nú tekur í fyrsta sinn fjöldi fyrirtækja frá Kína þátt í sýningunni en áður hafa aðallega verið þar evrópsk og bandarísk fyrirtæki.

Á morgun, þriðjudaginn 17. janúar, verða hin virtu orkuverðlaun, Zayed Future Energy Prize, afhent við hátíðlega athöfn. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er formaður dómnefndar og mun hann flytja ræðu við athöfnina. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum og nemur verðlaunaféð samtals um hálfum milljarði íslenskra króna. Fréttatilkynning. Myndir.