Veftré Print page English

Dómnefnd í Abu Dhabi


Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, féllst fyrir skömmu á að gegna formennsku í dómnefnd alþjóðlegu orkuverðlaunanna, Zayed Future Energy Prize, en þau hafa á skömmum tíma orðið hin virtustu sinnar tegundar í veröldinni. Meðal annarra dómnefndarmanna eru Mohammed Nasheed, forseti Maldíveyja, dr. Susan Hockfield, rektor MIT háskólans í Bandaríkjunum, Timothy Wirth, forseti Sameinuðu þjóða stofnunarinnar og fyrrverandi öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, Cherie Blair lögfræðingur, Leonardo DiCaprio, kvikmyndaleikari og umhverfissinni, og Elizabeth Dipuo Peters, orkuráðherra Suður Afríku. Forseti Íslands tók við formennsku í dómnefndinni af R. Pachauri Nóbelsverðlaunahafa og formanni Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Fundur dómnefndarinnar hófst í morgun, miðvikudaginn 14. desember, í Abu Dhabi. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum og nemur heildarupphæð verðlaunafjár jafnvirði tæpra 450 milljóna íslenskra króna. Þau verða síðan afhent á sérstakri hátíðarsamkomu í tengslum við Heimsþing hreinnar orku, World Future Energy Summit, sem haldið verður í janúar 2012.

Í gær, þriðjudaginn 13. desember, var forseti viðstaddur kynningu á samstarfsverkefni um þróun umhverfisvænnar steypu. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og steypufyrirtækið ReadyMix í Abu Dhabi standa að þessu verkefni og hefur Ólafur H. Wallevik prófessor stjórnað því. Rannsóknirnar fela í sér nýjungar í efnisnotkun og framleiðslu steypu þar sem losun koltvíoxíðs er orðin hverfandi. Steypan mun jafnframt uppfylla ítrustu kröfur um styrk og varanleika. Samkomulag um þetta þróunarverkefni var undirritað fyrir ári þegar forseti sótti Heimsþing hreinnar orku, World Future Energy Summit, í Abu Dhabi.

Í gærmorgun, þriðjudaginn 13. desember, sótti forseti umhverfisráðstefnuna Eye on Earth, sem haldin er í Abu Dhabi, en markmið hennar er að efla þróun upplýsingakerfa sem auka möguleika á því að fylgjast nákvæmlega með sjálfbærnistigi borga og samfélaga. Meðal ræðumanna var Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna en Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna er einnig aðili að ráðstefnunni. Í tengslum við hana var opnuð sýning á upplýsingatækni í þágu sjálfbærni.

Þá heimsótti forseti Masdar háskólann í Abu Dhabi sem tók til starfa fyrir tveimur árum. Stjórnendur háskólans kynntu forseta árangur rannsókna og fræðastarfs sem og reynsluna af hinum umhverfisvænu háskólabyggingum sem ætlað er að draga verulega úr orku- og vatnsnotkun. Forseta var á sínum tíma boðið af stjórnvöldum í Abu Dhabi að vera viðstaddur vígslu háskólabygginganna sem teiknaðar eru af Norman Foster. Íslenskir stúdentar hafa stundað nám við skólann og forseti tók þátt í mótun hugmynda um sjálfbærni sem liggja til grundvallar Masdar hverfinu.