Veftré Print page English

Forvarnardagurinn. Verðlaunaafhending


Forvarnardagurinn byggist á niðurstöðum íslenskra rannsókna sem sýna hvaða ráð duga best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi, samverustundir með fjölskyldunni og að fresta því sem lengst að neyta áfengis.
Mikið og gott forvarnarstarf er unnið í skólum landsins og víðast hvar er lögð áhersla á lífsleikni, hollustu og heilbrigt tómstundastarf. Á Forvarnardaginn fóru fram umræður nemenda í grunnskólunum um hugmyndir þeirra og tillögur varðandi nýjungar og breytingar á æskulýðs- og íþróttastarfi, fjölskyldulífi og öðrum þeim þáttum sem eflt geta forvarnir. Hugmyndir og tillögur nemenda voru teknar saman og settar í skýrslu sem birtist á vefsíðu dagsins, forvarnardagur.is. Þá gafst nemendum kostur á að taka þátt í ratleik á vefsíðum íþrótta- og ungmennasamtaka.
Í tengslum við Forvarnardaginn í framhaldsskólum var efnt til samkeppni um myndband sem best sýnir hvað geti fengið ungt fólk til þess að fresta því að drekka áfengi sem lengst eða sleppa því alveg. Auk þess sem allir nemendur framhaldsskóla gátu tekið þátt í keppninni var hún einnig opin nemendum í 9. og 10. bekkjum grunnskóla. Verðlaun verða veitt fyrir bestu myndböndin og nema verðlaunin samtals 500 þúsund krónum.
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðstandendur Forvarnardagsins auk forsetaembættisins eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Rannsóknir og greining og Félag íslenskra framhaldsskóla. Forvarnardagurinn var nú eins og áður skipulagður með myndarlegum stuðningi frá lyfjafyrirtækinu Actavis.