Veftré Print page English

Fórnarlömb umferðarslysa


Forseti tekur þátt í athöfn til að minnast fórnarlamba umferðarslysa. Viðstaddir athöfnina voru fulltrúar þeirra starfsstétta sem einkum sinna slíkum slysum: lögreglu, sjúkraflutningamanna, björgunarsveita, áhafna þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar, lækna og hjúkrunarfólks. Forseti flutti ávarp þar sem hann hvatti þjóðina til að sameinast í baráttunni gegn umferðarslysum, vottaði aðstandendum þeirra sem látist hafa samúð og þakkaði þeim starfsstéttum sem koma á vettvang. Forseti vakti athygli á því að frá því að hægri umferð var tekin upp á Íslandi árið 1968 hafa tæplega þúsund manns látið lífið í umferðinni og um 9.000 slasast alvarlega. Tekist hefði með samstilltu átaki að draga verulega úr fjölda þeirra sem drukkna og sá árangur væri hvatning til að sameinast um aðgerðir til að draga úr umferðarslysum. Í lok ávarps forseta var einnar mínútu þögn. Að henni lokinni heimsótti forseti starfsfólk bráðamóttökunnar og færði því sem þakklætisvott brauð og bakkelsi í tilefni dagsins.