Forseti Íslands
The President of Iceland
Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um skuldavanda þjóða
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun, mánudaginn 14. nóvember, setningarræðu á ráðstefnu Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNCTAD, sem haldin er í Genf. Ráðstefnuna sækir fjöldi forystumanna alþjóðastofnana, ráðherrar, sérfræðingar og embættismenn. Markmið hennar er að fjalla um nýjar reglur um ábyrga lánastarfsemi ríkja sem Viðskipta- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur unnið að síðastliðin tvö ár. Fjallað var um drög að þessum reglum á ráðstefnu í Kína í september 2010 en þar flutti forseti Íslands einnig ræðu og tók þátt í umræðum.
Í ræðu sinni í morgun áréttaði forseti nauðsyn slíkra reglna, rakti áhrif bankakreppunnar á íslenskt þjóðlíf og fjallaði um deiluna um Icesave, hvernig hún hefði knúið á um að lýðræðislegur réttur fólksins væri virtur umfram hagsmuni fjármálamarkaða. Þá lýsti forseti endurreisn efnahagslífsins á Íslandi þar sem m.a. hefði verið beitt aðferðum sem ganga þvert á ríkjandi skoðanir í Evrópu og Bandaríkjunum. Mikilvægt væri að íslenska ríkið hefði í kjölfar bankahrunsins, líkt og alla 20. öldina, ávallt staðið skil á sínum skuldum. Marga lærdóma mætti draga af reynslu Íslendinga þegar sniðnar væru alþjóðlegar reglur á þessu sviði eða mótuð stefna í glímunni við fjármálakreppuna sem nú herjar á Evrópu og ýmsa aðra hluta heims.
Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.
Að loknum morgunfundi ráðstefnunnar sat forseti Íslands hádegisverð í boði dr. Supachai Panitchpakdi, framkvæmdastjóra Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Meðal þátttakenda í ráðstefnunni í Genf eru stjórnendur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum, Evrópska þróunarbankanum og Þróunarbanka Afríku sem og ráðherrar og fleiri áhrifamenn frá Evrópu, Afríku og Asíu. Einnig sitja hana ýmsir þekktir alþjóðlegir sérfræðingar eins og t.d. Lee Buchheit.
Letur: |
| |