Veftré Print page English

Íslensku menntaverðlaunin


Forseti veitir Íslensku menntaverðlaunin í kvöld. Athöfnin verður í Sjálandsskóla í Garðabæ og hefst dagskráin kl. 19:00.
Fulltrúum fjölmiðla er boðið að vera viðstaddir verðlaunaveitinguna. Þar verða einnig meðal gesta kennarar, nemendur, áhugafólk um skólastarf og forystufólk á vettvangi kennara- og uppeldismenntunar í landinu.
Öllum sem starfa á vettvangi grunnskóla og láta sig skólamál miklu varða, kennurum, nemendum, foreldrafélögum, skólum og öllum almenningi var boðið að tilnefna þá sem þeir töldu verðuga verðlaunahafa.
Íslensku menntaverðlaunin, sem einkum eru bundin við grunnskólastarfið, verða veitt í fjórum flokkum:

1. Skóla sem sinnt hefur vel nýsköpun eða farsælu samhengi í fræðslustarfi.
2. Kennara sem skilað hefur merku ævistarfi eða á annan hátt skarað framúr
3. Ungum kennara sem í upphafi kennsluferils hefur sýnt hæfileika og lagt alúð við starf sitt.
4. Höfundi námsefnis sem stuðlað hefur að nýjungum í skólastarfi.

Tvær dómnefndir hafa starfað í aðdraganda verðlaunaveitingarinnar. Í þeirri dómnefnd sem fjallaði um tilnefningar í fyrsta og fjórða flokki, þ.e. skóla og námsefni, sátu:

• Finnur Friðriksson, lektor við Háskólann á Akureyri
• Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri Dalvíkur
• Lilja Jónsdóttir, lektor við kennaradeild Háskóla Íslands
• Guðfinna Bjarnadóttir, fv. rektor
• Kári Arnórsson fv. skólastjóri.

 Í dómnefnd sem fjallaði um tilnefningar í öðrum og þriðja flokki, þ.e. kennara, sátu:

• Valgeir Gestsson, fv. skólastjóri
• Guðrún Geirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands
• Gísli Jafetsson frá Sambandi Íslenskra sparisjóða
• Anita Sigurbergsdóttir, formaður foreldrafélags barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ
• Ragna Ólafsdóttir, fv. skólastjóri en hún lést fyrr á árinu.