Alþjóðleg ráðstefna um nýsköpun og endurreisn
Forseti heldur í dag ræðu á ráðstefnu PopTech samtakanna í Bandaríkjunum. Ráðstefnuna sækja mörg hundruð forystumenn í upplýsingatækni, nýsköpun, náttúruvernd og efnahagslegri og samfélagslegri þróun. Meðal þátttakenda eru stjórnendur frá fyrirtækjum eins og Google, Microsoft, YouTube, National Geographic og fleiri slíkum. Ræða forseta.
Í framhaldi af ræðu forseta verður tilkynnt að PopTech muni efna til stórrar alþjóðlegrar ráðstefnu á Íslandi í júní. Verður hún haldin í Hörpu. Ráðstefnan er helguð umræðum um endurreisn og nýsköpun, hvernig samfélög geti á árangursríkan hátt glímt við kreppur, náttúruhamfarir og áföll. Um 300 forystumenn munu sækja ráðstefnuna frá fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum í upplýsingatækni, nýsköpun, hönnun, fjölmiðlun og samfélagslegri stefnumótun.
Í ræðu sinni í dag fjallar forseti um ýmsa lærdóma sem draga má af reynslu Íslendinga í kjölfar bankahrunsins, aðgerðir á vettvangi efnahagslífs, þjóðmála og lýðræðis, og hvernig upplýsingatækni hefur gert almenningi kleift að láta að sér kveða. Einnig rekur hann framlag upplýsingatækni til að efla viðvaranir og björgunarstörf í kjölfar náttúruhamfara.