Veftré Print page English

Samvinna á Norðurslóðum


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun miðvikudaginn 12. október ræðu á ráðstefnu um framtíð Norðurslóða sem haldin er í Brussel. Ráðstefnuna sækja forystumenn og fulltrúar aðildarríkja Norðurskautsráðsins sem og sérfræðingar og vísindamenn. Ráðstefnan er haldin af International Polar Foundation í Brussel. Meðal ræðumanna í morgun var Maria Damanaki, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í málefnum sjávarútvegs og sjávarauðlinda. Fjallaði hún um áherslur Evrópusambandsins í málefnum Norðurslóða.

Í ræðu sinni rakti forseti mikilvægi Norðurslóða og áherslur Íslands, m.a. varðandi nauðsyn á verndun hins viðkvæma umhverfis um leið og stuðlað væri að eðlilegri og sjálfbærri efnahagsþróun. Forseti lagði sérstaka áherslu á varðveislu fiskistofna og nýtingu hreinnar orku sem og verkefni sem blasa við þegar Norðursiglingaleiðin opnast. Þá rakti hann fjölmörg dæmi um vaxandi samvinnu Íslands og Grænlands en hún sýndi hvernig þjóðir á Norðurslóðum geti á árangursríkan hátt aukið tengsl sín jafnt og þétt. Loks lagði forseti áherslu á ábyrgð allra ríkja gagnvart framtíð Norðurslóða því vaxandi mengun um heim allan leiddi til sífellt hraðari bráðnunar íss og jökla. Þá væri og mikilvægt að virða réttindi samfélaganna sem búið hefðu á Norðurslóðum um árþúsundir.

Varautanríkisráðherra ríkisstjórnar Grænlands, Innuteq Holm Olsen, flutti einnig ræðu í morgun þar sem hann fjallaði um hin fjölmörgu verkefni sem bíða Grænlendinga, m.a. í námuvinnslu, olíuleit og nýtingu vatnsafls. Lagði hann sérstaka áherslu á að efla þurfi menntun og rannsóknir í landinu og styrkja víðtæka samvinnu Grænlendinga við aðrar þjóðir. Ræða hans vakti mikla athygli á ráðstefnunni þar eð hún sýndi glöggt þá framtíðarstefnu sem ríkisstjórn Grænlands hefur markað.

Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu embættisins.