Forseti Íslands
The President of Iceland
Bókasýningin í Frankfurt
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur í dag, þriðjudaginn 11. október, ræðu við setningu Bókasýningarinnar í Frankfurt þar sem Ísland skipar heiðurssætið. Auk forseta flytur Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, ræðu við setninguna sem og rithöfundarnir Arnaldur Indriðason og Guðrún Eva Mínervudóttir.
Í ræðu sinni lýsir forseti mikilvægi bókmennta fyrir íslenska þjóð:
„Bækurnar eru í senn menning okkar og aflgjafi, rætur og uppspretta nýsköpunar. Þær eru við sjálf.
Ein bók getur um aldir mótað örlög þjóðar og gæfu einstaklinga; fylgt okkur alla ævi.“
„Heiðurssætið sem Ísland skipar er viðurkenning sem við metum mikils, vináttuvottur sem við munum lengi hafa í minnum, bautasteinn helgaður þeim sem á fyrri öldum skráðu sögur á skinn og viðurkenning á gróskumikilli uppskeru skáldanna sem mótað hafa okkar tíma, hvatning ungum höfundum um að vera í glímunni við þá mælistiku sem heimurinn telur besta ávallt trúr sínu fólki.“
„Sess Íslands hér í Frankfurt er því í senn heiður fyrir okkar litlu þjóð, heiður sem við þökkum af alhug, og skilaboð til allra manna hvar sem heimalönd þeirra kunna að vera, skilaboð um að garður skáldskaparins er margrar gerðar, ýmist smár eða víðáttumikill, ungur eða forn, nýræktin jafn gild og gamlir stofnar.“
Forseti fagnaði því einnig í ræðu sinni að í tengslum við sýninguna kemur út ný þýsk þýðing á Íslendinga sögum sem veitir þeim sem eiga þýsku að móðurmáli ný tækifæri til að kynnast arfinum sem Ísland hefði fært Evrópu. Þá lýsti forseti einnig mikilvægi bókanna í daglegu lífi Íslendinga og þeim áhrifum sem rithöfundar hefðu bæði nú og fyrrum haft á sjálfsvitund þjóðarinnar.
Fyrr í dag skoðuðu forsetahjónin íslenskar myndlistarsýningar sem haldnar eru í Frankfurt: sýningar á verkum Ragnars Kjartanssonar, Gabríelu Friðriksdóttur og Erró. Þá skoðuðu þau einnig sýningu á íslenskum ljósmyndum og yfirlitssýningu á íslenskri hönnun. Í gærkvöldi sóttu forsetahjónin tónleika sem haldnir voru í Gömlu óperunni í tilefni af bókasýningunni.
Forseti tók einnig þátt í blaðamannafundi sem haldinn var til að kynna forvarnarstarf í fjölmörgum evrópskum borgum. Það er byggt á þeirri reynslu sem Forvarnardagurinn á Íslandi hefur skilað og rannsóknum íslenskra félagsvísindamanna. Fyrirtækið Actavis hefur stutt þetta forvarnarátak dyggilega, bæði Forvarnardaginn á Íslandi og forvarnarstarfið í hinum evrópsku borgum.
Þá er athöfn í ráðhúsi Frankfurtborgar þar sem borgarstjórinn Petra Roth tekur á móti forsetahjónum. Forseti skráir nafn sitt í hina „gullnu bók“ ráðhússins og að því loknu flytja forseti og borgarstjóri ávörp.
Hægt er að nálgast ræðu forseta við setningu Bókasýningarinnar í Frankfurt á heimasíðu embættisins eftir klukkan 16:00 í dag.
Letur: |
| |