Veftré Print page English

Forvarnardagur. Heimsóknir á Akureyri


Forseti og forsetafrú heimsækja skóla á Akureyri í tilefni þess að í dag er haldinn Forvarnardagur í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Heimsóknin hófst í morgun í Giljaskóla og þaðan fara forsetahjónin í Lundarskóla. Síðan munu þau fyrir hádegi heimsækja Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann.

Forvarnardagurinn byggist á niðurstöðum íslenskra rannsókna sem sýna hvaða ráð duga best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi, samverustundir með fjölskyldunni og að fresta því sem lengst að neyta áfengis.

Aðstandendur Forvarnardagsins eru auk forsetaembættisins mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Rannsóknir og greining og Félag íslenskra framhaldsskóla. Forvarnardagurinn er nú eins og áður skipulagður með myndarlegum stuðningi lyfjafyrirtækinu Actavis.