Veftré Print page English

Forvarnardagur. Fréttamannafundur


Boðið er til kynningar- og blaðamannafundar um Forvarnardaginn í Breiðholtsskóla í dag mánudaginn 3. október klukkan 11:00. Viðstaddir kynninguna verða nemendur og stjórnendur skólans, sem og forsvarsmenn þeirra fjöldasamtaka og aðila sem standa að Forvarnardeginum sem haldinn verður miðvikudaginn 5. október 2011.

Á fundinum verða Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Jón Gnarr borgarstjóri, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir forstjóri Actavis á Íslandi, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Líney Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ, Bragi Björnsson skátahöfðingi, Guðbjörg Aðalbergsdóttir formaður Félags íslenskra framhaldsskóla og Jón Sigfússon frá Rannsóknum og greiningu.

Forvarnardagurinn, sem nú er haldinn í sjötta sinn í grunnskólum landsins, byggist á niðurstöðum íslenskra rannsókna sem sýna hvaða ráð duga best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi, samverustundir með fjölskyldunni og að fresta því sem lengst að neyta áfengis.

Mikið og gott forvarnarstarf er unnið í framhaldsskólum landsins og víðast hvar er lögð áhersla á lífsleikni, hollustu og heilbrigt tómstundastarf. Engu að síður sýna rannsóknir að ölvunardrykkja ungmenna eykst hratt eftir að grunnskóla lýkur. Þegar bornar eru saman rannsóknir meðal nemenda í 10. bekk og 16 og 17 ára nemenda framhaldsskóla má sjá að:

•    Þegar spurt er um ölvun undanfarna 30 daga, fer hlutfallið úr  9% í 43%

•    Hlutfall þeirra sem hafa prófað hass hækkar úr 3% í 7% og þeirra sem hafa prófað maríjúana  úr 8% í 12%

•    Hlutfall þeirra sem reykja fer úr 5% í 9%

Af þessu tilefni er sú nýbreytni tekin upp að framhaldsskólar taka þátt í Forvarnardeginum í ár. Verður efnt til funda í framhaldsskólum og fjallað um þessi efni.

Sá frábæri árangur sem náðst hefur í forvarnastarfi í grunn-skólum ætti að miklu leyti einnig að geta náðst í framhalds¬skólun¬um. Mikilvægt er að vekja athygli unglinga og foreldra á því að hið sama á við um nemendur í framhaldsskóla og grunnskóla að því lengur sem ungmenni draga að byrja neyslu áfengis þeim mun ólíklegra er að þeir verði áfengisfíkn að bráð.

Á Forvarnardaginn fara fram, nú sem áður, umræður nemenda í grunnskólunum um hugmyndir þeirra og tillögur varðandi nýjungar og breytingar á æskulýðs- og íþróttastarfi, fjölskyldulífi og öðrum þeim þáttum sem eflt geta forvarnir. Hugmyndir og tillögur nemenda eru teknar saman og settar í skýrslu sem birt er á vefsíðu dagsins, forvarnardagur.is. Þá gefst nemendum kostur á að taka þátt í ratleik á vefsíðum íþrótta- og ungmennasamtaka og eru þar verðlaun í boði. Upplýsingar um daginn eru einnig aðgengilegar á Fésbók (www.facebook.com/forvarnardagur).

Í tengslum við Forvarnardaginn í framhaldsskólum er efnt til samkeppni um myndband sem best sýnir hvað geti fengið ungt fólk til þess að fresta því að drekka áfengi sem lengst eða sleppa því alveg. Auk þess sem allir nemendur framhaldsskóla geta tekið þátt í keppninni er hún einnig opin nemendum í 9. og 10. bekkjum grunnskóla. Verðlaun verða veitt fyrir bestu myndböndin og nema verðlaunin samtals 500 þúsund krónum. Frestur til að skila inn myndbandi er til 1. nóvember.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðstand¬endur Forvarnardagsins auk forsetaembættisins eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Rannsóknir og greining og Félag íslenskra framhaldsskóla. Forvarnardagurinn er nú eins og áður skipulagður með myndarlegum stuðningi lyfjafyrirtækinu Actavis.