Forseti Íslands
The President of Iceland
Fundur með Putin. Ráðstefna í Arkangelsk
Forsætisráðherra Rússlands, Vladimir Putin, bauð forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni að sækja ráðstefnu um norðurleiðina og önnur málefni Norðurslóða.
Meginviðfangsefni ráðstefnunnar er hvernig bráðnun hafíss kallar á nýja skipan og ábyrga stefnumótun.
Ráðstefnan hófst í morgun í Arkangelsk í Rússlandi og síðdegis átti forseti fund með forsætisráðherra Rússlands. Áður höfðu báðir flutt ræður á ráðstefnunni sem sótt er af fjölda forystumanna, sérfræðinga og áhrifafólks frá ríkjum á Norðurslóðum.
Á fundinum með forseta Íslands ítrekaði Vladimir Putin áhuga Rússa á því að auka samvinnu við Ísland á mörgum sviðum. Viðfangsefni sem tengjast væntanlegri opnun hinnar nýju siglingaleiðar kalla á víðtækt samráð en lega Íslands og Rússlands mun skipta miklu þegar siglingar hefjast. Nauðsynlegt sé að huga að setningu strangra reglna til að efla öryggi og umhverfisvarnir. Ennfremur sé þegar hafin umræða um hvaða hafnir kunna að gegna lykilhlutverki.
Á fundinum kom einnig fram mikill áhugi á því að auka samstarf við Íslendinga á sviði jarðhitanýtingar, jafnt í Rússlandi sem annars staðar í veröldinni. Orkumálaráðherra Rússlands, sem einnig sat fundinn, kom til Íslands fyrir ári í kjölfar fundar forseta Íslands með Vladimir Putin í septembermánuði 2010, og átti viðræður við stjórnvöld, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki. Á fundinum nú var ítrekaður sérstakur áhugi Rússa á nýtingu jarðhita á Kamtsjatka.
Vladimir Putin nefndi einnig ríkan áhuga Rússa á því að efla samvinnu milli þjóðanna um rannsóknir og sjálfbæra nýtingu á fiskistofnum og auðlindum hafsins.
Einnig kom fram að árið 2013 yrði sjötíu ára afmæli stjórnmálasambands landanna.Af því tilefni hefðu Rússar mikinn áhuga á viðburðum á sviði menningar, myndlistar, útgáfu og fræða, og taldi Putin sérstakt fagnaðarefni ef Rússum gæfist kostur á því að kynnast verkum Jóhannesar Kjarvals.
Á ráðstefnunni í Arkangelsk eru flutt fjölmörg erindi sem snerta undirbúning siglinga um hinar nýju norðurleiðir en þær munu stytta verulega siglingaleiðir milli Asíu og Evrópu annarsvegar og Asíu og Ameríku hinsvegar. Þá er einnig fjallað um þróun samstarfs á sviði öryggismála, eftirlits og björgunar. Í þeirri umræðu er einnig lögð rík áhersla á verndun umhverfis og strangar öryggiskröfur varðandi siglingar og nýtingu náttúruauðlinda á Norðurslóðum.
Letur: |
| |