Forseti Íslands
The President of Iceland
Clintonþingið í New York. Málþing
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tekur í dag, þriðjudaginn 20. september, og á morgun þátt í Clintonþinginu í New York, Clinton Global Initiative, en William J. Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, bauð forseta að sækja þingið.
Clintonþingin hafa á undanförnum árum orðið öflugur vettvangur þar sem áhrifafólk víða að úr veröldinni, þjóðarleiðtogar, sérfræðingar, fjölmiðlafólk og fulltrúar almanna- og baráttusamtaka ræða lausnir á brýnum vandamálum.
Forseti Íslands hefur auk þess setið fyrir svörum ásamt dr. Edmund Phelps, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði og prófessor við Columbia háskólann, á leiðtogafundi Blouin stofnunarinnar, Blouin Creative Leadership Summit. Umræðuefni þeirra var sköpun nýrra atvinnutækifæra í kjölfar fjármálakreppunnar. Í kvöld verður svo samræða forseta við Ali Velshi, fréttamann CNN, kjarni lokafundar Blouin þingsins.
Í fyrramálið mun forseti hefja umræður í málstofu Clintonþingsins um hvernig skipulag borga getur byggt á hreinni orku, umhverfisvænni umferð og sjálfbærum lífsháttum, m.a. í ljósi þeirra umbreytinga sem orðið hafa á Íslandi á síðastliðnum áratugum.
Forseti Íslands mun jafnframt sækja fundi og málstofur Clintonþingsins, m.a. um áhrif þess á efnahagslíf, samfélagshætti og náttúru þegar mannkynið verður á næstu áratugum 7-10 milljarðar, um glímuna við skort á heilbrigðisþjónustu, þörfina á nýjum atvinnutækifærum og viðbrögð við náttúruhamförum.
Letur: |
| |