Veftré Print page English

Opinber heimsókn forseta Litháens til Íslands


Forseti Litháens dr. Dalia Grybauskaitė kemur í opinbera heimsókn til Íslands á morgun, fimmtudaginn 25. ágúst. Á öðrum degi heimsóknarinnar verða liðin nákvæmlega 20 ár frá því að Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna fullt sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja. Í heimsókn forseta Litháens verður þeirra tímamóta minnst með ýmsum hætti, m.a. með sérstakri athöfn í Höfða að morgni föstudagsins 26. ágúst en þar undirrituðu utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands samkomulag þessa efnis 26. ágúst 1991.

Í fylgdarliði forseta Litháens er Audronius Ažubalis utanríkisráðherra landsins auk embættismanna frá embætti forseta og utanríkisráðuneyti Litháens.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka á móti dr. Dalia Grybauskaitė forseta Litháens á morgun, fimmtudaginn 25. ágúst kl. 15:00, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum að viðstöddum ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum. Í kjölfar athafnarinnar er viðræðufundur forsetanna og munu þau síðan ræða við blaðamenn á Bessastöðum kl. 16:00. Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bjóða forseti Íslands og forsetafrú til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Litháens.

Dagskrá föstudagsins 26. ágúst hefst með athöfn í Höfða til að minnast þess að þá verða liðnir nákvæmlega tveir áratugir frá því að utanríkisráðherrar landanna staðfestu að Íslendingar viðurkenndu fullt og óskorað sjálfstæði Litháens og annarra Eystrasaltsríkja með undirritun samkomulags um stjórnmálasamband ríkjanna. Athöfnin hefst kl. 09:15 en samkomulagið var undirritað kl. 09:30 26. ágúst 1991. Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík og forseti Íslands hafa boðið til þessarar athafnar m.a. þeim sem viðstaddir voru þennan atburð fyrir 20 árum auk þingmanna og embættismanna. Meðal dagskrárliða við athöfnina eru ávörp borgarstjórans í Reykjavík og forseta Litháens en jafnframt mun litháíski píanóleikarinn Mūza Rubackytė leika verk eftir landa sinn Mikalojus Konstantinas Čiurlionis og Arnór Hannibalsson ræðismaður Litháens á Íslandi taka við heiðursviðurkenningu frá forseta Litháens.

Frá Höfða liggur leiðin í samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð þar sem m.a. Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Magnús Tumi Guðmundsson prófessor, Margrét Laxdal varaformaður Landsbjargar og Kjartan Þorkelsson sýslumaður á Holsvelli kynna miðstöðina og viðbrögð við nýlegum eldgosum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Heimsóknin í Skógarhlíð hefst kl. 10:35.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis tekur á móti hinum litháísku gestum í Alþingi klukkan 11:40 og býður þeim til hádegisverðarfundar með fulltrúum stjórnmálaflokka í utanríkismála-nefnd.

Forseti Litháens flytur inngangserindi að hringborðsumræðum sem hefjast í Þjóðmenningarhúsinu kl. 13:20. Þátttakendur í umræðunum verða m.a. þingmenn, embættismenn, háskólafólk, fulltrúar félagasamtaka og fjölmiðla. Umræðunum stýrir Þóra Arnórsdóttir fréttamaður. Eftir hringborðsumræðurnar munu forseti Litháens og fylgdarlið skoða handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu undir leiðsögn Sigurgeirs Steingrímssonar fræðimanns á Árnastofnun.

Forseti Litháens mun opna sýningu í Norræna húsinu kl. 16:30 sem helguð er minningu litháíska tónlistar- og myndlistarmannsins Mikalojus Konstantinas Čiurlionis (1875-1911). Við það tækifæri mun Mūza Rubackytė pínóleikari jafnframt flytja verk eftir hann.

Formlegri dagskrá opinberrar heimsóknar forseta Litháens til Íslands lýkur á Þingvöllum að kvöldi föstudagsins 26. ágúst. Eftir skoðunarferð um þjóðgarðinn mun forsetinn eiga fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Í kjölfar fundarins býður forsætisráðherra til kvöldverðar á Þingvöllum.

Áður en forseti Litháens fer af landi brott laugardaginn 27. ágúst mun hún fyrri hluta þess dags heimsækja Hellisheiðarvirkjun og skoða Geysi og Gullfoss.