Alaska og Ísland
Á fundum forseta Íslands í Alaska undanfarna tvo daga hefur komið fram ríkur vilji forystumanna Alaska ríkis að auka samstarf við Ísland, nýta sér þekkingu á sviði jarðhita og rækta sameiginlega hagsmuni á sviði fiskveiða og samgangna á Norðurslóðum, bæði farþegaflugs og vöruflutninga.
Myndir
Hin alþjóðlega ráðstefna um Norðurslóðir sem lauk í Alaska í gær sýndi ótvírætt aukið mikilvægi Norðurslóða og vaxandi áhuga stórfyrirtækja, rannsóknarstofnana og vísindasamfélags á að gera sig gildandi á þeim vettvangi. Forseti Íslands flutti opnunarræðu ráðstefnunnar og tók þátt í umræðum og málfundum hennar. Á þeim var m.a. fjallað um siglingaleiðir á Norðurslóðum, byggingu hafnarmannvirkja, fjárfestingu á fjölmörgum sviðum, öryggismál, samvinnu um björgun og mengunarvarnir, sem og aukna samvinnu ríkjanna á Norðurslóðum, góðan árangur af störfum Norðurskautsráðsins og mikilvægi þess að auka samvinnu íbúa þvert á landamæri.
Þá átti forseti Íslands fund með Richard Haass forseta Alþjóðaráðs Bandaríkjanna (Council on Foreign Relations) um þátttöku ráðsins í umræðum og rannsóknarverkefnum varðandi málefni Norðurslóða. Var ákveðið að leita leiða til að þekking og reynsla Íslendinga gæti nýst í störfum ráðsins. Alþjóðaráðið er ein virtasta og umsvifamesta rannsóknarstofnun Bandaríkjanna í utanríkismálum og hefur í áratugi haft víðtæk áhrif á stefnumótun.
Í gær ræddi forseti við Sean Parnell ríkisstjóra, Mead Treadwell vararíkisstjóra og nokkra ráðherra Alaska. Þar kom fram mikill áhugi stjórnvalda í Alaska á að hefja á ný viðræður við íslensk verkfræðifyrirtæki og rannsóknaraðila um víðtæka nýtingu jarðhita í Alaska. Þá væru ýmis rök sem styddu aukna samvinnu á sviði alþjóðlegra flutninga þar sem bæði Alaska og Ísland gætu gegnt mikilvægu hlutverki, m.a. með tilliti til aukins vægis Norðurslóða í hagkerfi heimsins. Parnell ríkisstjóri lýsti miklum áhuga á því að heimsækja Ísland á næstu mánuðum.
Þá átti forseti fund með stjórnendum og starfsmönnum Norðurstofnunarinnar í Alaska (Institute of the North) sem gegnt hefur mikilvægu hlutverki á sviði stefnumótunar og rannsókna. Hugsanlegt er að Norðurstofnunin hafi forgöngu um heimsókn fjölmennrar sveitar áhrifamanna á ýmsum sviðum til Íslands á hausti komanda.
Forseti flutti einnig ræðu á hádegisverðarfundi Alþjóðaráðs Alaska (Alaska World Affairs Council) um þá lærdóma sem draga má af fjármálakreppunni og endurreisn íslensks efnahagslífs. Auðlindir landsins, hrein orka, fiskistofnar og fögur náttúra hafa ásamt kunnáttu og hæfni landsmanna skapað þjóðinni öfluga viðspyrnu. Þrátt fyrir að margir glími enn við mikla erfiðleika sýnir reynsla Íslendinga að auðlindir á Norðurslóðum eru traustari grundvöllur stöðugs efnahagslífs en hinn sveiflukenndi ágóði fjármálamarkaða. Sá lærdómur sé jafn mikilvægur í Alaska eins og á Íslandi sem og á öllum Norðurslóðum, vísbending um að íbúar norðursins geti vænst bjartrar framtíðar.