Veftré Print page English

Framfarir á Norðurslóðum. Ráðstefna í Alaska


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur í dag, mánudaginn 20. júní, ræðu á setningarathöfn fjölþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er í Alaska. Viðfangsefni hennar er að ræða nauðsyn framkvæmda og sérstakra framtíðaráætlana með tilliti til nýrra siglingaleiða sem bráðnun íss á Norðurslóðum mun innan tíðar hafa í för með sér.

Ráðstefnan ber heitið „Hugsið um Beringssund sem næsta Panamaskurð.“ Með heitinu er gefið til kynna að hinar nýju siglingaleiðir við Alaska í vestri og Rússland, Noreg og Ísland í austri gætu haft eins byltingarkenndar afleiðingar fyrir efnahagslíf veraldarinnar, verslun og viðskipti milli heimsálfa, og Panamaskurðurinn og Súesskurðurinn höfðu á sínum tíma.

Ráðstefnuna sækir fjöldi áhrifamanna á sviði alþjóðamála og viðskipta, sem og forystumenn í Alaska og margir vísindamenn og sérfræðingar. Rætt verður sérstaklega um þörf fyrir regluverk og alþjóðlega samninga um slíkar siglingar, viðbrögð við hugsanlegri mengun og umhverfisslysum, byggingu hafnarmannvirkja og þróun þjónustumiðstöðva fyrir gámaskip. Þá verður einnig rætt um orkumál, nýtingu auðlinda og aukið samstarf í öryggis- og björgunarmálum.

Á meðan forseti dvelur í Alaska mun hann eiga fund með Sean Parnell, ríkisstjóra Alaska, og öðrum ráðamönnum fylkisins, m.a. Mead Treadwell vararíkisstjóra sem um árabil hefur unnið með forseta Íslands að málefnum Norðurslóða. Þá mun forseti einnig eiga viðræður við ýmsa þátttakendur í ráðstefnunni.

Ræða forseta er og myndir verða aðgengilegar þar síðar.