Veftré Print page English

Háskólasamstarf á Norðurslóðum


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, miðvikudaginn 8. júní, ræðu á þingi Háskóla Norðurslóða (University of the Arctic) sem haldið var í Rovaniemi í Finnlandi. Hátt á annað hundrað háskólar og rannsóknarstofnanir taka þátt í þessu samstarfi og eru þeir frá öllum Norðurlöndum, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi. Þingið var haldið í tilefni 10 ára afmælis samstarfs háskólanna.

Í ræðu sinni rakti forseti tengsl Háskóla Norðurslóða við Rannsóknarþing Norðursins sem forseti hafði í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskóla Lapplands frumkvæði um á sama tíma og háskólasamstarfi á Norðurslóðum var hleypt af stokkunum. Rannsóknar¬þing Norðursins mun næst koma saman á Íslandi í september.

Einnig fjallaði forseti um sjálfbæra þróun á Norðurslóðum, ríkuleg tækifæri í nýtingu hreinnar orku, t.d. í Rússlandi, Grænlandi og Alaska, en þar gæti íslensk þekking komið að góðum notum. Áréttaði forseti nauðsyn þess að fiskveiðar í norðurhöfum yrðu sjálfbærar og komið yrði í veg fyrir ofveiði þegar bráðnun íss opnaði ný mið. Þá þyrfti að setja sem fyrst reglur og öryggiskröfur varðandi skipaferðir um norðurhöf áður en reglulegar siglingar hefðjast um norðurleiðina milli Asíu og Evrópu og Ameríku.

Þá tók forseti þátt í umræðum á þinginu í Rovaniemi, átti fund með formanni þingmannasamtaka Norðurslóða og sat hátíðarkvöldverð í boði Háskóla Lapplands.

Ræða forseta er birt á heimasíðu embættisins.