Veftré Print page English

Opinber heimsókn forseta Slóveníu


Forseti Slóveníu dr. Danilo Türk og eiginkona hans frú Barbara Miklič Türk koma í opinbera heimsókn til Íslands á morgun, þriðjudaginn 3. maí og munu dvelja hér í tvo daga. Með forsetanum koma þrír ráðherrar í ríkisstjórn Slóveníu, frú Darja Radić efnahagsráðherra, frú Irma Pavlinič Krebs, ráðherra opinberrar stjórnsýslu, og Roko Žarnić umhverfis- og skipulagsmálaráðherra auk embættismanna. Þá fylgja forseta Slóveníu viðskiptasendinefnd, með fulltrúum ríflega 20 slóvenskra fyrirtækja, og blaðamenn.

Heimsóknin hefst á morgun, þriðjudaginn 3. maí með hátíðlegri athöfn á Bessastöðum kl. 14:30. Þar munu íslensku forsetahjónin ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum taka á móti hinum erlendu gestum. Í kjölfarið fylgir viðræðufundur forseta landanna. Þeir munu síðan ræða við blaðamenn kl. 15:35.
   
Frá Bessastöðum heldur forseti Slóveníu í heimsókn til Alþingis. Þar verður hann ávarpaður úr forsetastóli en síðan munu forsetinn og ráðherrar eiga fund með fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi og forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hinir slóvensku ráðherrar munu jafnframt eiga sérstaka fundi með íslenskum starfsbræðrum sínum síðdegis þriðjudaginn 3. maí.
   
Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bjóða forseti Íslands og forsetafrú til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Slóveníu og forsetafrú.
   
Heimsóknardagana mun Barbara Miklič Türk, forsetafrú Slóveníu, m.a. heimsækja Hönnunarsafn Íslands, vinnustofur ungra listamanna, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi og handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu.
   
Að morgni miðvikudagsins 4. maí munu forseti og fylgdarlið hans vera við opnun viðskiptastefnu sem Íslandsstofa hefur skipulagt. Hún verður á Radisson Blu Hótel Sögu og hefst kl. 8:40 með ávörpum forseta Íslands og forseta Slóveníu. Þá fylgir stutt athöfn þar sem skrifað verður undir tvo viðskiptasamninga milli íslenskra og slóvenskra aðila.
   
Eftir viðskiptastefnuna mun forseti Slóveníu hitta Slóvena sem búsettir eru á Íslandi stutta stund en síðan liggur leiðin í Háskóla Íslands.
   
Dr. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tekur á móti forseta Slóveníu í anddyri Aðalbyggingar háskólans kl. 09:30 en í kjölfarið verður haldið í Gimli, hús félagsvísindadeildar. Þar stýrir dr. Ólafur Þ. Harðarson, sviðsforseti félagsvísindasviðs, málstofu sem hefst með inngangserindi forseta Slóveníu um efnið Slóvenía í Evrópusambandinu og alþjóðasamfélaginu. Slóvenía fór með forsæti í Evrópusambandinu fyrir þremur árum.
   
Frá Háskólanum halda forsetinn og fylgdarlið hans áleiðis til Þingvalla þar sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tekur á móti hinum slóvensku gestum kl. 11:50 við Ráðherrabústaðinn á Þingvöllum. Eftir viðræðufund forseta Slóveníu og forsætisráðherra bjóða forsætisráðherra og maki til hádegisverðar.
   
Eftir hádegi miðvikudaginn 4. maí verður efnt til málþings um reynsluna af nýtingu jarðhita á Íslandi og þá lærdóma sem Slóvenar gætu af henni dregið við framkvæmdir í sínu heimalandi. Málþingið verður haldið í Hellisheiðarvirkjun og hefst kl. 14:35. Þar munu flytja stutt erindi Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Ólafur Flóvenz forstjóri ÍSOR, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntadeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, Guðjón Magnússon, verkefnisstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur, og Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits.
   
Að kvöldi miðvikudagsins 4. maí mun forseti Slóveníu ásamt forseta Íslands sækja opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.