Forseti Íslands
The President of Iceland
Ársþing stjórnenda í Kaupmannahöfn
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti nú síðdegis fyrirlestur á ársþingi Stjórnunarstofnunar dansks atvinnulífs en ársþingið er haldið í Kaupmannahöfn og sækja það um sjö hundruð stjórnendur í dönskum fyrirtækjum ásamt sendiherrum erlendra ríkja. Að fyrirlestrinum loknum sat forseti fyrir svörum hjá dönsku fréttakonunni Lillian Gjerulf Kretz.
Í ræðunni fjallaði forseti um lærdómana sem draga má af reynslu síðustu ára, bæði með tilliti til bankahrunsins á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi Þá rakti hann ítarlega hvernig íslenskt atvinnulíf væri á ný að sækja í sig veðrið, hraðar og á árangursríkari hátt en búist hefði verið við þegar bankarnir hrundu. Hann nefndi dæmi um burðarfyrirtæki í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, lyfjaframleiðslu, stoðtækjum, upplýsingatækni, hönnun og fleiri greinum sem væru að ná afar góðum árangri.
Einnig væri athyglisvert að erlend stórfyrirtæki eins og Rio Tinto, Alcoa og Century Aluminium vildu öll auka fjárfestingu sína á Íslandi og í því væri fólgin mikil traustsyfirlýsing.
Auðlindir landsins, fiskistofnar, hrein orka, forðabúr vatns og náttúrufegurð væru öflugur grundvöllur undir hagþróun komandi ára. Þróun samvinnu á Norðurslóðum og mikilvæg lega Íslands með tilliti til nýrra siglingaleiða fælu líka í sér fjölmörg ný tækifæri.
Forsetinn fjallaði einnig um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og útskýrði að öruggt væri að Bretar og Hollendingar fengju á næstu mánuðum sjö til níu milljarða Bandaríkjadala úr þrotabúi Landsbankans. Það væri hæsta greiðsla sem um gæti í sögu Íslands.
Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu embættisins, forseti.is.
Letur: |
| |