Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2011
Forseti afhendir Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2011 á hátíðarmóttöku í Kópavogi. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum. Í flokknum fjármálastjórnun hlaut verðlaunin Björn Zoega forstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í flokknum gæðastjórnun hlaut verðlaunin Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar. Í flokknum markaðsstjórnun hlaut verðlaunin Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova. Í ávarpi sínu ræddi forseti um nauðsyn þess að halda til haga þeim mikilvæga árangri sem stjórnendur fjölmargra fyrirtækja og stofnana hefðu náð á undanförnum misserum. Hættulegt væri að halda að þjóðinni "einsögum" um erfiðleika og afturför því að reynslan sýndi að hundruð stjórnenda á mörgum stigum stofnana og fyrirtækja væru með atorku, hugmyndaauðgi og faglegum vinnubrögðum að skila verulegum árangri. Slíkt hefði m.a. komið fram í erindum sem Björn Zoega, forstjóri LHS, og Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, hefðu flutt á hátíðarmóttökunni áður en verðlaunaafhendingin fór fram.
Vefur Stjórnvísi.