Forseti Íslands
The President of Iceland
Páfagarður. Fundir og afhending styttu
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, átti í morgun föstudaginn 4. mars einkafund með Benedikt XVI páfa á skrifstofu hans í Vatíkaninu og afhenti síðan við sérstaka athöfn styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur sem varðveitt verður í Páfagarði. Styttan er gjöf frá íbúum á Snæfellsnesi, heimabyggð Guðríðar, og var hópur Snæfellinga viðstaddur athöfnina ásamt dr. Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Síðar í dag verður svo málþing um miðalda- og kirkjusögu á fyrstu öldum Íslandsbyggðar í Háskóla heilags Tómasar frá Akvínó.
Á fundi forseta og Benedikts páfa var rætt um mikilvægi Íslendingasagna í sögu kristinnar trúar og hvernig landafundir í Vesturheimi hefðu á sínum tíma fært trúna til nýrrar heimsálfu mun fyrr en almennt hefur verið talið. Forseti flutti páfa einnig kveðjur frá biskupi kaþólskra á Íslandi, prestum kirkjunnar og félagi leikmanna en forseti átti fund með forsvarsmönnum safnaðarins á Bessastöðum áður en hann fór til Rómar.
Þá var á fundinum fjallað um hvernig Vínlandssögurnar lýsa ævi Guðríðar og um einstæðan sess hennar í sögu kristinnar trúar. Nefndi páfi að ævi hennar sýndi hinn kristna heim fyrir þúsund árum í nýju ljósi enda yrði styttunni af Guðríði fundinn veglegur staður í Páfagarði.
Þá ræddu forseti Íslands og Benedikt páfi einnig um afleiðingar efnhagskreppunnar á Íslandi, glímu samfélagsins við margvíslega erfiðleika sem fylgdu í kjölfarið og mikilvægi þess að draga lærdóma af slíkri reynslu. Ennfremur var fjallað um framlag kaþólska safnaðarins á Íslandi, einkum hve vel hefði tekist að auðvelda þúsundum nýbúa frá kaþólskum löndum að aðlagast íslensku samfélagi.
Að loknum fundinum afhentu forseti Íslands og Snæfellingar Benedikt páfa styttuna af Guðríði Þorbjarnardóttur sem Ásmundur Sveinsson myndhöggvari gerði. Við það tækifæri nefndi forseti að samkvæmt íslenskum frásögnum hefði Guðríður verið fyrsta manneskjan í veraldarsögunni til að heimsækja bæði Róm og Ameríku og væri nú á ný komin til Rómar um 1000 árum síðar. Þá afhenti forseti páfa Biblíuna í nýrri íslenskri þýðingu, gjöf frá herra Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands. Páfi fékk einnig greinargerð frá Snæfellingum um ævi Guðríðar auk þess sem forseti gaf páfa hátíðarútgáfu af Konungsbók Eddukvæða.
Að lokinni afhendingu styttunnar áttu forseti Íslands og Elín Flygenring, sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði, fund með Tarcisio Bertone kardínála, forsætisráðherra Páfagarðs. Á þeim fundi var ítarlega rætt um sögu Guðríðar og áhuga kaþólsku kirkjunnar á að gera henni góð skil, halda minningunni um Guðríði hátt á lofti og kynna hvernig ævi hennar endurspeglar hinn kristna heim fyrir þúsund árum.
Síðar í dag verður haldið málþing um íslenska miðalda- og kirkjusögu í Háskóla heilags Tómasar frá Akvínó. Þar flytja fyrirlestra dr. Guðrún Nordal og dr. Svanhildur Óskarsdóttir og einnig dr. Carla del Zotto, prófessor við Rómarháskóla.
Í gær, fimmtudaginn 3. mars, hélt forseti setningarræðu á málþingi sem Íslandsstofa efndi til í Róm þar sem fjallað var um þróun efnahagslífs á Íslandi og tækifæri til samvinnu á sviði hreinnar orku, ferðaþjónustu, sjávarútvegs og fleiri greina. Síðar þann dag heimsótti forseti Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í boði dr. Jacques Diouf, framkvæmdastjóra hennar. Þar ræddi forseti við dr. Diouf og aðra forystumenn stofnunarinnar um hvernig nýta megi reynslu Íslendinga í sjávarútvegi, einkum notkun upplýsingatækni í þágu sjálfbærs sjávarútvegs sem og hvernig unnt væri að þróa eftirlit með fiskveiðum víða um heim. Einnig var fjallað um nýtingu jarðhita í matvælaframleiðslu, bæði gróðurhúsaræktun og þurrkun matvæla, sem og hvernig reynsla og tæknikunnátta Íslendinga á því sviði gæti nýst þjóðum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.
Letur: |
| |