Veftré Print page English

Páfagarður. Styttan af Guðríði


Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands mun eiga fund með Benedikt páfa XVI í Páfagarði föstudaginn 4. mars næstkomandi. Við það tækifæri mun forseti færa páfa og Páfagarði endurgerð af styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði Þorbjarnardóttur og Snorra Þorfinnssyni, syni hennar. Það er fjölmenn sveit Snæfellinga, heimamanna Guðríðar, sem staðið hefur straum af kostnaði við endurgerð styttunnar og mun hópur úr þeirra röðum fylgja styttunni í Páfagarð.

Með því að finna styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur stað í Páfagarði er verið að viðurkenna einstakt framlag hennar til sögu heimsins og kristninnar. Guðríður var fyrsta manneskjan í sögunni til að sækja heim bæði Róm og Ameríku, mörgum öldum áður en Kristófer Kólumbus lagði í sína för. Guðríður var kristin kona og trúrækin og með ferð hennar til Vesturheims var kristin trú iðkuð í þeirri álfu um hálfu árþúsundi áður en oft er haldið fram.

Forseti býður til blaðamannafundar í dag, fimmtudaginn 24. febrúar, kl. 14:00 til að kynna fyrirhugaða heimsókn til Páfagarðs. Á fundinum verða einnig fulltrúar Snæfellinga og jafnframt gefst færi á því að skoða styttuna sem fer til Páfagarðs.

Í heimsókninni mun forseti Íslands einnig eiga fund með Bertoni kardínála, forsætisráðherra Páfagarðs. Meðan á dvöl forseta í Róm stendur mun hann jafnframt heimsækja höfuðstöðvar FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í boði framkvæmdastjóra hennar, dr. Jacques Diouf. Þar verður m.a. rætt um sjálfbærar fiskveiðar og nýtingu jarðhita í landbúnaði og matvælaframleiðslu.

Í tengslum við heimsóknina til Rómar efnir Íslandsstofa til viðskiptamálþings að morgni fimmtudagsins 3. mars. Forseti Simest, Giancarlo Lanna, setur málþingið og forseti Íslands flytur ræðu.  Auk hans munu Ginacarlo Giorgetti þingmaður á ítalska þinginu og Anthony Oldani frá Íslandsstofu flytja ræður á málþinginu.

*

Guðríður Þorbjarnardóttir var ein víðförulasta manneskja veraldar á sinni tíð, um árið 1000, jafnoki þeirra karla sem lögðu höf undir skip sín og könnuðu Norðurálfu allt frá stórám Rússlands í austri til Furðustranda hins nýja heims í vestrinu. Hún fæðist á Íslandi, giftist á Grænlandi, elur son í Norður-Ameríku, ferðast til Noregs, setur sér bú á Íslandi, gengur suður til Rómar og fær aflausn synda sinna, og endar ævi sína sem heittrúuð nunna og einsetukona á Íslandi. Lífshlaup Guðríðar spannar þannig nánast alla hina þekktu veröld norrænna manna á miðöldum.

Saga Guðríðar er rakin í Vínlandssögunum tveimur, Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu.  Þó nokkuð beri á milli er meginþráður í lífshlaupi hennar ljós. Hún er fyrst kynnt til sögu ung kona á Íslandi, fædd á Snæfellsnesi og sögð „kvenna vænst og hinn mesti skörungur í öllu athæfi sínu“. Faðir hennar flytur búferlum til Grænlands og þar gengur hún að eiga son fyrsta landnámsmanns á Grænlandi, Þorstein Eiríksson bróður Leifs heppna, landkönnuðar og kristniboða sem fyrstur Evrópumanna sigldi til Norður-Ameríku árið 1000. Þorsteinn andast á fyrsta hjúskaparári þeirra í farsótt og þá gengur Guðríður að eiga Þorfinn karlsefni. Þau halda síðan í mikinn leiðangur til Vínlands og dvelja þar veturlangt. Þar fæðir Guðríður sveinbarn, Snorra Þorfinnsson, hinn fyrsta Evrópumann sem borinn er í Norður-Ameríku. Þau hjón og fylgdarmenn þeirra eiga margvísleg samskipti við frumbyggja, fyrst verslun og vöruskipti, síðar berjast þeir og svo fer að þau snúa heim til Grænlands.

Guðríður situr með bónda sínum og syni um hríð á Grænlandi en síðan halda þau til Noregs og selja þar margvíslegt góss sitt frá Grænlandi og Vínlandi. Þau kaupa sér síðan land á Íslandi og stofna þar gott bú, eignast börn og buru. Þegar Þorfinnur andast leggur Guðríður enn land undir fót, að þessu sinni fer hún suður til Rómar og þiggur aflausn. Ævikvöldi sínu eyðir hún hjá syni sínum í Skagafirði, þeim hinum sama og fæddur var á Vínlandi, sem nunna og einsetukona.