Sendiherra Bangladess
Forseti á fund með nýjum sendiherra Bangladess, hr. A.F.M. Gousal Azam
Sarker, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um
alvarlegar afleiðingar sem hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga
mundi hafa fyrir Bangladess. Þar gætu rúmlega þrjátíu milljónir manna
misst heimili sín og grundvöllur efnahagslífs og samfélagsgerðar
kollvarpast. Samstarf vísindamanna um rannsóknir á bráðnun íss, bæði á
Himalajasvæðinu og í norðri, er því mikilvægt verkefni. Einnig var
fjallað um samstarf í sjávarútvegi, þjálfun fólks frá Bangladess í
Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem og hugsanlegt
samstarf í skipasmíðum og lyfjaiðnaði.