Veftré Print page English

Jarðhitaþing í Bandaríkjunum


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun miðvikudaginn 9. febrúar setningarræðu á þingi Jarðhitasamtaka Bandaríkjanna sem haldið er í New York. Þingið sækir fjöldi sérfræðinga og forystumanna í jarðhitamálum, bæði frá Bandaríkjunum og öðrum löndum.

Á þinginu er einkum fjallað um fjármögnun jarðhitaframkvæmda og munu fulltrúar orkufyrirtækja og fjárfestingasjóða flytja þar erindi. Mikil umræða hefur að undanförnu verið um hvernig Bandaríkin geti virkjað jarðhita og þannig aukið orkuöryggi og hlutdeild hreinnar orku í hagkerfi landsins. Stjórnvöld í Washington jafnt sem einstök fylki hafa sýnt aukinn áhuga á slíkum framkvæmdum og beinist athyglin meðal annars að þeim árangri sem Íslendingar hafa náð og hvernig hægt er að nýta reynslu og þekkingu íslenskra sérfræðinga.

Fulltrúar orkuráðuneytis Bandaríkjanna og einstakra fylkisstjórna sem og Alþjóðabankans og annarra alþjóðastofnana verða einnig meðal þátttakenda í þinginu.