Veftré Print page English

Efnahagsþingið í Davos


Forseti sækir í dag og á morgun Alþjóða efnahagsþingið World Economic Forum sem haldið er í Davos í Sviss. Forseti tekur þátt í fjölda málþinga og samræðufunda þar sem verður m.a. fjallað um þróun efnahagsmála, eflingu viðbragða og viðvaranir vegna fjármálakreppu og náttúruhamfara, arðbæran sjávarútveg á grundvelli sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins og alþjóðlegt samstarf á þeim vettvangi.
Þá mun forseti ásamt forseta Finnlands og forsætisráðherrum Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur taka þátt í málstofu um norræna módelið í efnahagsmálum og velferðarþjónustu, og um hvað aðrar þjóðir geta lært af reynslu Norðurlanda.
Forseti mun einnig ræða við fjölda fjölmiðla. Hann ræddi m.a. í beinni útsendingu við Maria Bartiromo, einn helsta fréttamann alþjóðlegu sjónvarpstöðvarinnar CNBC og verður í kvöld í beinni útsendingu á CNN. Forseti ræddi einnig í morgun við sjónvarpsstöð Reuters og alþjóðlegu sjónvarpsstöðina Bloomberg. Viðtalið á CNBC
Á meðan forseti dvelur í Davos mun hann eiga viðræður við ýmsa áhrifamenn á vettvangi alþjóðamála. Alþjóða efnahagsþingið sitja þjóðarleiðtogar víða að úr veröldinni, stjórnendur alþjóðastofnana, forystumenn í efnahagsmálum og fjármálalífi auk fjölda sérfræðinga og fjölmiðlafólks.
Það var Klaus Schwab, stjórnandi og stofnandi World Economic Forum, sem bauð forseta að sækja Alþjóða efnahagsþingið.