Veftré Print page English

Heimsþing. Ban Ki-moon


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, mánudaginn 17. janúar, opnunarræðu á Heimsþingi hreinnar orku (World Future Energy Summit) sem haldið er í Abu Dhabi. Þá átti forseti fund með Ban Ki-moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en auk þeirra tveggja fluttu ræður við setningu þingsins meðal annarra Asif Ali Zardari forseti Pakistans, José Sócrates forsætisráðherra Portúgals, Sheikh Hasina Wazed forsætisráðherra Bangladess og Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar.

Heimsþingið sækir fjöldi þjóðarleiðtoga, ráðherrar umhverfismála og orkumála víða að úr veröldinni auk vísindamanna, tæknimanna, sérfræðinga og forystumanna í atvinnulífi. Markmið þingsins er að vísa veginn í átt að byltingu í orkubúskap heimsins en aukinn áhugi er nú víða í veröldinni á samvinnu við Íslendinga um nýtingu jarðhita og vatnsafls.

Á fundinum með Ban Ki-Moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna var einkum rætt hvernig reynsla Íslendinga og tækniþekking gæti nýst þróunarríkjum, m.a. í Afríku, Asíu og Mið-Ameríku. Grundvallarbreyting í orkumálum væri forsenda árangurs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum en Ban Ki-Moon hefur gert þá baráttu að megináherslu í stjórnartíð sinni sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Forseti Íslands lýsti rannsóknum íslenskra jöklafræðinga og á hvern hátt Ísland væri kjörinn vettvangur til að sjá með eigin augum samspil loftslagsbreytinga sem birtast í bráðnun jökla og aukinnar nýtingar hreinnar orku sem er forsenda árangursríks viðnáms gegn slíkum breytingum.

Þá ræddu forseti og Ban Ki-moon um þróun mála á Norðurslóðum, nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu til að móta reglur og stjórn þegar nýjar siglingaleiðir kunna að opnast vegna bráðnunar hafíss. Auk þess væri mikilvægt að alþjóðasamfélagið dragi lærdóma af því hversu hratt loftslagsbreytingar gerast nú á Norðurslóðum.

Forseti Íslands bauð framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, að heimsækja Ísland enda gæti slík heimsókn styrkt málflutning hans á alþjóðavettvangi. Viðræður við íslenska vísindamenn, verkfræðinga og tæknifólk, gætu verið liður í slíkri heimsókn auk vettvangsferða. Ban Ki-moon lýsti miklum áhuga á því að þiggja slíkt heimboð.

Í ræðunni við setningu Heimsþingsins um hreina orku lagði forseti áherslu á að samvinna Íslands og Abu Dhabi væri vitnisburður um hvernig þjóðir heims gætu nú tekið höndum saman á nýjan hátt. Það hefði verið ánægjuefni fyrir sig og íslenska sérfræðinga að taka þátt í þróun þingsins sem stofnað var til fyrir fjórum árum og koma að ýmsum brautryðjendaverkefnum á sviði hreinnar orku í Abu Dhabi.

Þá átti forseti fund með dr. Farooq Abdullah, ráðherra endurnýjanlegrar orku á Indlandi, sem heimsótti Ísland í sumar og þakkaði honum fyrir hve skjótt hann hefði komið á samvinnu milli íslenskra orku- og verkfræðifyrirtækja og indverskra aðila. Farooq Abdullah taldi að Íslendingar gætu gegnt mikilvægu hlutverki við að ryðja brautina fyrir nýtingu jarðhita á Indlandi og lýsti ánægju með árangur af nýlegri heimsókn Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra til Indlands.

Þá ræddi forseti einnig við ýmsa aðra þátttakendur í Heimsþinginu og skoðaði yfirgripsmikla sýningu sem mörg hundruð fyrirtæki og stofnanir á sviði hreinnar orku taka þátt í. Þar er lögð áhersla á nýja tækni og lausnir á fjölmörgum og ólíkum sviðum. Einnig ræddi forseti við marga fjölmiðla, sjónvarpsstöðvar og blöð frá Mið-Austurlöndum sem og alþjóðlegar sjónvarpsstöðvar.